131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:50]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni sem snýr að einum lífeyrissjóði, Lífeyrissjóði bænda. Ég ætla hins vegar í þessari ræðu að fjalla almennt um stöðu lífeyrissjóðsmála og víkja m.a. að máli sem við lukum umræðu um áðan, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Ég ætla að leyfa mér í upphafi máls að fullyrða að með því sem við erum að gera í dag á Alþingi, þ.e. ef við samþykkjum þessi tvö frumvörp, þá séum við að framlengja ákveðna mismunun milli fólks. Ég veit ekki hvort sú mismunun kemur til af því að misjöfn viðhorf séu til kynja í þjóðfélaginu sem lengi hafi viðgengist. Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga er upprunninn í kvennastétt, hjúkrunarfræðingar hafa lengstum verið konur og makar hjúkrunarfræðinga lengst af verið karlmenn. Í lögunum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga er ákvæði sem segir að makar hjúkrunarfræðinga fái 70% makalífeyri en ekki 50% eins og við erum að tala um í sambandi við Lífeyrissjóð bænda og eins og reglurnar eru í Lífeyrissjóði sjómanna. Hvað þá að talað sé um það sem nú er búið að setja inn í samþykktir sumra lífeyrissjóða, að makalífeyrir sé að fullu greiddur í þrjú ár, síðan að hálfu í þrjú ár og síðan sé því lokið. Þannig er það í sumum lífeyrissjóðum.

Ég held að það sé ágætt að við förum svolítið efnislega í þessa umræðu. Við erum að tala um að lífeyrisréttur fólks í þessu landi er lögbundinn misjafn. Ég ætla að halda því fram í þessari umræðu að í þessu tilfelli sé hann lögbundinn eftir kynjum. Það er greinilegt að menn hafa horft á maka hjúkrunarfræðinganna og tryggt þeim betri lífeyri en almennt er í lífeyriskerfinu með því að tryggja þeim 70% réttindi. Ég ætla að lesa hvernig um málið er búið í 11. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Ég ætla að taka það fram að ég vildi ekki taka þessa umræðu áðan í umræðum um réttindi í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga því að þá hefðu menn sjálfsagt talið að ég legðist gegn þeim réttindum. Þess vegna tek ég þessa umræðu hér.

Í 11. gr. áðurnefndra laga segir, með leyfi forseta:

„Nú andast sjóðfélagi og lætur hann eftir sig maka á lífi og á þá makinn rétt til lífeyris úr sjóðnum eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið.“

Allt í lagi með þetta. Síðan segir:

„Upphæð makalífeyris er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga. Makalífeyrir hækkar síðan um 20% af launum þeim er hann miðast við ef hinn látni sjóðfélagi hefur verið í fullu starfi við starfslok,“

Síðan segir:

„Viðbótarlífeyrir þessi greiðist þó einungis ef hinn látni sjóðfélagi hefur uppfyllt eitt af þremur eftirgreindum skilyrðum:

1. Hann hafi verið í starfi er veitti honum aðild að sjóðnum við andlátið.

2. Hann hafi hafið töku lífeyris fyrir andlátið og upphaf lífeyristöku hans hafi verið í beinu framhaldi af starfi sem veitti honum aðild að sjóðnum.

3. Hann hafi greitt iðgjöld til sjóðsins sem nemur iðgjaldagreiðslum af fullu starfi í 15 ár eða meira og ekki greitt iðgjald til annars sjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.“

Að þessum skilyrðum uppfylltum á maki hjúkrunarfræðings 70% lífeyrisrétt. Við erum ekki að tala um það varðandi Lífeyrissjóð bænda, því miður. Mér býður í grun að þessi ákvæði hafi kannski verið sett inn á sínum tíma vegna þess að menn hafi litið til þess að makar hjúkrunarfræðinga væru yfirleitt karlmenn. Ég vek athygli á þessu og tel fulla ástæðu til að ræða þetta mál gaumgæfilega en þó er ekki um það að ræða að ég sjái neina ástæðu til þess að draga úr réttindum í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. En ég efast mjög um það, virðulegur forseti, að það sé nokkur sanngirni í útfærslunni á Lífeyrissjóði bænda, á Lífeyrissjóði sjómanna né mörgum öðrum lífeyrissjóðum.

Ég ætla að nefna eitt nýlegt dæmi úr Lífeyrissjóði sjómanna. Ég ætla ekki að nefna nafnið. Fyrir örfáum vikum lést sjóðfélagi í Lífeyrissjóði sjómanna fyrir 60 ára aldur. Sá einstaklingur hafði í fjöldamörg ár verið einn af mestu aflaskipstjórum þessa lands. Vegna þess að hann hafði ekki náð 60 ára aldri voru ekki komin til greina þau réttindi að fá lífeyri úr Lífeyrissjóði sjómanna enda maðurinn í fullu starfi. Hann hafði sem sagt greitt í lífeyrissjóðinn af háum launum sínum sem skipstjóri í áratugi og maki hans á núna rétt á að fá hluta af þeim lífeyrisgreiðslum sem hann hafði áunnið sér. Makinn fær samkvæmt því, ef ég man rétt, fullan lífeyri í þrjú ár og hálfan lífeyri í þrjú ár, að því gefnu að hjónin hafi ekki átt barn undir 18 ára aldri við andlát makans.

Þetta er sem sagt staðan og þá renna öll önnur réttindi sem einstaklingur hefur áunnið sér í lífeyrissjóðinn. Þetta held ég að menn þurfi að fara að endurskoða. Í þessu frumvarpi, um Lífeyrissjóð bænda, erum við m.a. að fjalla um að setja inn:

„Upphæð elli- og örorkulífeyris skv. 9. og 10. gr. er hundraðshluti af grundvallarlaunum, sbr. 1. mgr., samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum. Upphæð makalífeyris skv. 11. gr. skal vera 50% lægri.“

Við erum sem sagt að lögbinda að eiginkonur bænda, ef karlinn fellur frá, fái 50% lægri lífeyri en makinn hafði áunnið sér. En raunin er sú, virðulegur forseti, að hjá þeirri starfsstétt sem við ræðum hér um, bændum, hefur fólk yfirleitt unnið saman að bústörfunum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki þau mál ekki nákvæmlega en ég tel reyndar að það hafi verið afar misjafnt hvernig bændur fóru að því að telja fram tekjur sínar og greiða í lífeyrissjóð. Ég held að það hafi verið afar misjafnt. Mér býður í grun að margar eiginkonur bænda eigi lítinn lífeyrisrétt sjálfar í lífeyrissjóði, þó að ég viti það ekki. Þá erum við að horfa til þess að viðkomandi konur, ef við tölum um kvenkyns makann í þessu tilfelli, eigi margar hverjar lítinn lífeyrisrétt og jafnvel minni lífeyrisrétt en bændurnir, sem eiga þó tiltölulega lítinn lífeyrisrétt. Það hefur komið fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur á Alþingi. Talnaglöggir menn á Alþingi hafa talið að meðallífeyrir bænda úr lífeyrissjóði sé um 15–17 þús. kr.

Eiginkonurnar eiga eftir fráfall makans að fá 50% af því, hæstv. forseti. Finnst hæstv. forseta og þingmönnum að hér sé um að ræða mikið réttlætismál þar sem ríki jafnræði með konum og körlum? Er það svo? Á ég að trúa því að í þingsalnum muni konur greiða þessu ákvæði atkvæði? Eigum við að trúa því eftir alla jafnréttisumræðuna? Ég tók þátt í jafnræðisumræðu sem hæstv. forseti, sem nú situr í forsetastól, stóð fyrir fyrir nokkru. Við ræddum um jafnréttismál (Forseti hringir.) og ég tel að hér séum við líka, hæstv. forseti, að ræða málefni sem snúa að jafnrétti fólks. (Forseti hringir.)

(Forseti (JBjart): Forseti hafði ætlað sér að gera hlé á þessum fundi í um 30 mínútur til klukkan hálftvö. Forseta heyrist að þingmaðurinn sé ekki nálægt því að ljúka máli sínu þannig að honum stendur til boða að halda ræðunni áfram að loknu matarhléi.)

Ég þigg það, virðulegi forseti. Það má kannski bjóða upp á kaffihlé líka.