131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:28]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum. Hér hafa orðið allmiklar umræður um stöðu Lífeyrissjóðs bænda sem slíks og stöðu hans líka gagnvart öðrum lífeyrissjóðum í landinu. Þær breytingar sem hér er verið að gera eru í sjálfu sér ekki neitt stórvægilegar sem slíkar. Það er verið að auka heimildir sjóðsins bæði til þess að innheimta iðgjöld og einnig til að rýmka útgreiðslur eða greiðslu lífeyris. Ég kem hér fyrst og fremst til þess að taka undir og vekja ítrekaða athygli á stöðu lífeyrissjóðsins, þ.e. hversu hann er í raun veikur. Það ætti ekki að þurfa að koma á óvart. Staðreyndin er sú að í gegnum árin hafa lífeyrissjóðsgreiðslurnar og greiðslur í Lífeyrissjóð bænda verið hluti af samningi á milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna. Afurðaverð til bænda og einnig verð á landbúnaðarvörum til neytenda hefur lengst af verið samningsatriði, annars vegar á milli ríkisins og bænda og líka verið hluti af því að stýra kaupgjaldi og verðlagi í landinu. Oft hefur verið gripið inn í verðlagsforsendur á landbúnaðarvörum þegar hefur átt að hafa áhrif á verðbólgu, slá á verðbólgu, stýra kaupmætti þannig að laun og verðlagsmyndun í landbúnaði hefur oft verið hluti af miklu stærra dæmi. Lífeyrissjóður bænda sem slíkur er því bara eitt afsprengi af því ráðslagi sem hefur verið um áratuga bil. Auk þess hefur staða bænda verið sú að þeir eru í öðru orðinu atvinnurekendur þó svo að gerður hafi verið þessi samningur við ríkið um verð og að hluta til kaup og kjör í landbúnaði.

Ég er að leiða líkur að því að staða Lífeyrissjóðs bænda hvíli á félagslegri ábyrgð, á ábyrgð ríkisins þannig að hin erfiða staða lífeyrissjóðsins nú kemur í sjálfu sér ekkert á óvart, alls ekki, og það er í rauninni skylda ríkisins, skylda samfélagsins að taka á vanda þess lífeyrissjóðs þannig að hann geti veitt þeim þegnum landsins sem eiga rétt í sjóðnum sambærileg lífeyriskjör og annars staðar tíðkast í samfélaginu.

Mér sýnist því vera mjög brýnt að taka mál Lífeyrissjóðs bænda upp í stærra samhengi en hér er verið að gera og finna honum öruggan framtíðarsess, framtíðarstöðu. Það er einmitt vikið að því í greinargerð með þessu frumvarpi að aldurssamsetning sjóðfélaga sé með þeim hætti að stór hluti sjóðfélaga er í eldri kantinum. Tiltölulega stór hluti er þegar kominn á þann aldur að mega þiggja lífeyri úr sjóðnum eða er að komast á þann aldur að svo fari þannig að hinn hlutinn sem er áfram stór og virkur greiðandi í sjóðinn verður hlutfallslega minni. Þetta er líka vandi þessa sjóðs og speglar ákveðna samfélagsbreytingu í landinu sem hefur að hluta til verið drifin áfram með stjórnvaldsákvörðunum í breyttu atvinnu-, efnahags- og búsetumynstri beint og óbeint. Þess vegna er hin erfiða staða sjóðsins og viðfangsefni hans ekki eingöngu mál bænda heldur ekki síður mál samfélagsins alls.

Þess vegna vildi ég segja hér að það er mjög brýnt að málefni sjóðsins séu tekin upp í heild sinni til þess að finna honum varanlegan sess og varanlega framtíð. Þó að verið sé að leggja inn í hann einhverjar lítils háttar upphæðir til styrktar sjóðnum er það engan veginn fullnægjandi til þess að hann fái staðið undir því hlutverki og því verkefni sem honum er falið.

Hér hefur verið rætt um rétt á makalífeyri t.d. Kveðið er á um að lífeyrisréttindi maka skuli einungis vera um 50% af reiknuðum réttindum aðalsjóðfélaga. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom einmitt inn á það að þau séu miklu lakari en gerist hjá ýmsum öðrum sjóðum. Nú er í sjálfu sér ekki verið að breyta því í þessu frumvarpi heldur er þetta nú þegar svo í gildandi lögum. Þar stendur í 13. grein, með leyfi forseta:

„Upphæðir makalífeyris skv. 11. gr. skulu reiknaðar á sama hátt en með margföldunarstuðli sem er 50% lægri.“

Þessi ákvæði um 50% yfirfæranlegan makalífeyri eru nú þegar í gildandi lögum. Engu að síður er fyllilega ástæða til að það sé skoðað og hefði verið alveg fyllilega tilefni til þess að gera það nú um leið og verið er að breyta þessum ákvæðum sjóðsins sem við erum hér að fjalla um því að sé þarna á ferðinni misrétti eða með öðrum orðum sé þarna ekki um jafngild réttindi maka að ræða og tíðkast í öðrum sjóðum þá er sjálfsagt, finnst mér, að það sé kannað hvernig megi leiðrétta það.

Frú forseti. Ég ætla annars ekki að fara neitt ítarlega í þessi atriði. Það hefur verið gert mjög rækilega hér. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur fjallað um þetta mál þar hélt hér mjög ítarlega ræðu þar sem hann fór í gegnum lífeyrissjóðsmálin almennt og síðan sértækt hvað laut að Lífeyrissjóði bænda. Ég hef því engu við það að bæta öðru en þessu að ég tel mjög brýnt að lög um Lífeyrissjóð bænda séu tekin upp í heild sinni og skoðuð með það að markmiði að réttur sjóðfélaga þar sé fyllilega sambærilegur við það sem gerist hjá bestu lífeyrissjóðum landsins. Vinnandi stéttir samfélagsins, hvort sem það eru sjómenn, verkamenn, bændur, iðnverkafólk, skrifstofufólk eða hverjir sem eru, allir eiga að hafa góð lífeyrisréttindi og við þurfum ekki síst að taka á réttindum bænda og bændafólks í þessum efnum. Ég ítreka það að ég tel að það eigi að endurskoða sem allra fyrst lög um Lífeyrissjóð bænda í þessu augnamiði. En það ætti jafnvel að kanna núna milli 2. og 3. umr. hvort við hefðum átt líka að skoða þessi 50% ákvæði um rétt makalífeyris og breyta því þá í þessari meðferð ef það þætti mögulegt og rétt. Það er mjög slæmt ef um mikinn mismun á réttindum fólks er að ræða hvað þetta varðar á milli einstakra sjóða.