131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:48]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um Lífeyrissjóð bænda. Margt hefur komið fram í þessari umræðu og umræðan er ágæt í sjálfu sér. Það er þeim ljóst sem hafa hlustað á umræðuna að það hafa komið upp vandamál með lífeyrisréttindi bænda sem hafa aðild að þeim sjóði. Þar kemur margt til, eins og við þekkjum. Reglurnar og lögin um sjóðinn voru með þeim hætti að menn borguðu ekki inn af fullum launum. Það var ákveðið þak á inngreiðslum til sjóðsins og auk þess fækkar í þessari atvinnugrein þannig að það eru færri sem borga í sjóðinn og mun fleiri sem þiggja greiðslur úr sjóðnum. Það er margt fleira sem mætti tína til sem gerir það að verkum að þessi sjóður er í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Það er mjög slæmt mál. Ég tek undir það.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, þar sem hann nefndi áðan að stjórnvöld bæru vissa ábyrgð, sem ég tek undir. En spurning mín til hans er: Með hvaða hætti og hvernig fyndist honum að stjórnvöld ættu að taka á með þessari ágætu atvinnugrein og hvað er til úrlausna í sjálfu sér?

Ég vil að það komi fram að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það sé ekki rétt og eðlilegt og æskilegt fyrir bændur að greiða samhliða í frjálsa lífeyrissjóði. Ég vil hvetja menn til þess þrátt fyrir að þeir séu bundnir samkvæmt lögum því að vera í Lífeyrissjóði bænda og borga þar inn. Ég hvet bændur samt sem áður til að borga í frjálsa sjóði og hafa þar aukasjóð þegar fram í sækir.