131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:52]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Hér hefur að mörgu leyti farið fram fróðleg umræða um lífeyriskerfið almennt og það er mjög gott, að þetta skuli vera rætt og ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir frumkvæðið að því.

Síðustu skoðanaskiptin sem fóru fram í andsvörum voru mjög athyglisverð. Þar kom fulltrúi ríkisstarfsmanna, formaður BSRB, og vildi endilega hækka öll réttindi uppávið, hvað sem það kostaði. Ríkið borgar. Einn af landsbyggðarþingmönnum bænda vill líka bæta kjör bænda (JBjarn: Þingmaður þjóðarinnar.) hvað sem það kostar og láta guð almáttugan borga, þ.e. ríkið. Nú er það svo, (Gripið fram í.) herra forseti, að það er yfirleitt hinn almenni launþegi sem greiðir alla skatta og skyldur í þessu þjóðfélagi. Ef við ætlum að velta einhverjum byrðum yfir á ríkið þá verður það hinn almenni launþegi, félagsmaður í ASÍ og félagsmaður í BSRB, hinn almenni launþegi sem greiðir það og jafnvel þótt fyrirtæki sé látið greiða það. Á endanum kemur það fram þannig að ráðstöfunarlaunin verða lægri.

Það er nefnilega þannig að guð almáttugur hefur ekki haft það fyrir sið að borga fyrir ríkið á Íslandi. Almenningur í landinu greiðir það allt saman. Menn hafa bæði gert kröfu á ríkið fyrir hönd sjómanna og bænda og ég veit ekki hvað. Þetta er voðalega auðvelt en það er í rauninni krafa BSRB á ASÍ-félaga að borga nú brúsann. Þannig er nú það.

Það hefur lítið verið rætt um það að þjóðin verði langlífari. Það kostar alla þjóðina 1% í hærra iðgjaldi í lífeyrissjóði sem reyndar er að forminu til greitt af atvinnurekendum. En þeir gætu að sjálfsögðu hækkað öll laun í landinu um þá krónutölu ella. Svo er aukinn örorkulífeyrir sem kostar þjóðina annað prósent. Þjóðin er núna farin að borga 2% af öllum launum vegna lengri lífaldurs og örorku. Þetta kemur niður á fólki sem er að vinna, eignast börn og koma sér upp húsnæði.

Það sem við ræðum hér er í fyrsta lagi möguleiki stjórnar Lífeyrissjóðs bænda til að hækka iðgjaldið upp í eitthvað hærra á sjóðfélaga, þ.e. bændur, og möguleiki stjórnar til að hækka iðgjaldið úr 6% í eitthvað hærra fyrir launagreiðandann, sem er merkilegt nokk hjá bændum ríkissjóður. Það byggir á búvörusamningum. Ríkið borgar 250 millj. kr., eins og kemur fram í frumvarpinu, á ári inn í Lífeyrissjóð bænda sem atvinnurekandi. Mjög merkilegt.

Í frumvarpinu er jafnframt getið um það að þetta skuli nota til að gera stjórninni kleift að taka upp aldurstengd lífeyrisréttindi. Hvað þýðir það? Það er kannski það sem við ættum að ræða nákvæmast hvað þýða aldurstengd lífeyrisréttindi?

Þannig er að iðgjald sem tvítugur maður borgar stendur í 45 ár á vöxtum hjá lífeyrissjóðnum þar til hann hefur töku ellilífeyris við 65 ára aldur, ef við gerum ráð fyrir því. Iðgjald sem sextugur maður borgar stendur ekki nema í fimm ár, sem þýðir það að réttindin sem ungi maðurinn ætti að fá ættu að vera margfalt hærri en réttindin sem hinn aldraði fengi fyrir sama iðgjald. Það er reyndar um þrefalt hærra sem hinn yngri ætti að fá að öllu jöfnu. Þá væri kerfið í lagi. Hingað til hafa menn haft jafnaðariðgjald fyrir alla aldurshópa. Allir hafa borgað jafnt og fengið sömu réttindi, jafnt hinn sextugi sem hinn tvítugi.

Herra forseti. Sjóðir með mikið af ungu fólki, ég nefni sem dæmi Lífeyrissjóð verslunarmanna en mjög margir byrja í Lífeyrissjóði verslunarmanna ungir og starfa í svona fimm, sex eða tíu ár, og fara svo í aðra sjóði, háskólasjóði og marga aðra, Lífeyrissjóð bænda o.s.frv. Vegna þess arna þá eru réttindin sem þetta fólk fær miklu meiri en rétturinn sem því er gefinn, þ.e. það ætti að fá mikið hærri réttindi. Sá lífeyrissjóður stendur mjög vel og getur borgað hærri lífeyri fyrir sama iðgjald.

Annar sjóður, ég nefni þá Lífeyrissjóð bænda sem dæmi, sem er með mikið af öldruðum félögum, veitir hins vegar of mikil réttindi fyrir sama iðgjald og hann stendur illa. Þá þarf að skerða sjóðfélaga, bara af því þeir eru í lífeyrissjóði með mikið af öldruðum sjóðfélögum. Þetta hef ég í um 20 ár talað um sem tímasprengjuna sem íslenska lífeyrissjóðakerfið býr við. Það að menn skuli hljóta mismunandi lífeyrisrétt á endanum eftir því hvað fólkið við hliðina á því í lífeyrissjóðnum er gamalt. Það gengur ekkert upp.

Hugsum okkur bónda sem vinnur á býli sínu og hann er giftur konu sem við skulum segja að vinni í kaupfélaginu. Konan borgar í Lífeyrissjóð verslunarmanna, þar sem er mikið af ungu fólki, og karlinn borgar í Lífeyrissjóð bænda, þar sem mikið er af gömlu fólki. Þau eru bæði skylduð til þess með lögum frá Alþingi að borga í þessa sjóði. Þau hafa ekkert val. Vegna þess hve mikið er af gömlu fólki í Lífeyrissjóði bænda þá þarf að skerða lífeyrisgreiðslur til bóndans, bara af því hann var skyldaður til að borga í þann sjóð. En konan sem borgaði í Lífeyrissjóð verslunarmanna, var skylduð til þess og mátti ekki borga í neinn annan lífeyrissjóð, fær uppbót af því hún er í lífeyrissjóði sem vill svo til að í er mikið af ungu fólki, sem þýðir að hún fær uppbót fyrir sama iðgjald og bóndinn, maðurinn hennar, borgaði inn í Lífeyrissjóð bænda. En greiðslur til bóndans eru skertar. Þetta segir mér að svona kerfi gangi ekki til lengdar, enda sjáum við það núna. Það fer eftir aldurssamsetningu sjóðfélaga hvort lífeyrisréttindi þeirra eru skert eða ekki, en alls ekkert eftir þeirri ávöxtun sem stjórn sjóðsins nær.

Ég minni á það þegar Lífeyrissjóður verkstjóra var sameinaður öðrum sjóðum í Sameinaða lífeyrissjóðinn þá þurfti að skerða réttindin um 25%, það þurfti að skerða lífeyrisréttindi verkstjóra um 25% vegna þess að sjóðfélagar voru flestir orðnir gamlir. Einstaka verkstjóri var ungur en það skipti ekki máli.

Þetta er sú tímasprengja sem menn eru núna að reyna að vinda ofan af með því að taka upp aldurstengd lífeyrisréttindi. Sú umræða kom ekki upp allt í einu eða í lokuðum hópi. Ég veit ekki betur en að ASÍ hafi rætt þetta á mörgum þingum. Þetta er búið að vera í umræðunni hjá Landssamtökum lífeyrissjóða í lengri tíma, enda var þetta vandamál þekkt. Einn lífeyrissjóður hefur haft þetta alla tíð, þ.e. Lífeyrissjóður verkfræðinga. Að meðaltali kemur þetta nákvæmlega eins út en vandinn er sá að við erum með misgamla lífeyrissjóði. Ef þeir væru allir jafngamlir þá gætum við haft þetta meðaliðgjald, eins og verið hefur. Þetta hefur alltaf verið vitað.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hann hreyfði því líka að konur yrðu öðruvísi tryggðar. Vissulega. Konur lifa lengur. Þar af leiðandi er ellilífeyrir þeirra dýrari en ellilífeyrir karlmanna. En makalífeyrir þeirra er hins vegar ódýrari því að makinn er yfirleitt yngri og lifir mikið skemur. Hann er karlmaður yfirleitt, þ.e. maki kvenna. Þannig held ég að þetta upphefjist nokkurn veginn, hvort á móti öðru, þ.e. (Gripið fram í.) ódýrari makalífeyrir kvenna á móti dýrari ellilífeyri.

Langskólagengið fólk, það er rétt, byrjar starfsævina miklu seinna, en oft og tíðum vinna menn með námi og öðlast réttindi þar þann tíma. Á tímabili var líka greitt í lífeyrissjóð af lánunum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég skil ekki af hverju það var tekið í burtu og af hverju það er ekki tekið upp aftur því ákveðið gat myndast í réttindavinnslu fólks við það að fara í nám.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat þess að hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vissi lífeyrisþeginn að hverju hann gengi af því að réttindin eru föst en iðgjaldið er breytilegt. En aumingja skattgreiðandinn veit ekki að hverju hann gengur. Það er vitað að ef vextir á fjármagnsmarkaði fara niður fyrir 3,5%, sem stefnir hraðbyri í, til góðs fyrir alla lántakendur í landinu og alla launþega sem eru að fjármagna íbúðarhúsnæði sitt, þá muni þurfa að skerða lífeyri hjá öllum almennu lífeyrissjóðunum því að þeir hafa engan bakhjarl. Það munar gífurlega miklu um það þegar vextir fara niður í 2,5% á markaðnum, það þyrfti því að skerða mjög mikið.

Á sama tíma mun þurfa að hækka iðgjald í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, bara si svona, hækka skattgreiðslurnar á þetta sama fólk í ASÍ. Á sama tíma og verið er að skerða það á að hækka skattgreiðslur til að halda uppi háum réttindum hjá opinberum starfsmönnum. Ég er hræddur um að það sé þriðja tímasprengjan í dæminu, en þær eru nokkrar. Það er t.d. tímasprengja milli A- og B-deildar, því að B-deildarfólkið fær lífeyrisréttindi sem hækka eins og laun, og þau hafa hækkað alveg gífurlega undanfarið, á meðan A-deildarfólkið fær lífeyrisréttindi sem hækka eins og verðlag, miklu minna. Það á eftir að koma í ljós að opinberir starfsmenn uppgötva þetta og það er ein tímasprengjan í viðbót. Það er mikið af svona misræmi í kerfinu.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson talaði mikið um Lífeyrissjóð bænda og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Hann gleymdi að geta þess að örorkulífeyrir hjá opinberu sjóðunum, Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, er afskaplega lélegur. Hann miðast nefnilega við áunnin réttindi. Maður sem er búinn að starfa í fimm ár hjá ríkinu og fær 2% fyrir hvert ár fær 10% af launum sem örorkulífeyri, það eru nú öll ósköpin. Sá lífeyrir er skammarlega lakur. En menn hafa ekki viljað snerta á honum vegna þess að þá rugga menn bátnum. Þetta á við um B-deildina.

Hins vegar ef við tökum Lífeyrissjóð sjómanna, maður sem búinn er að starfa sem sjómaður í fimm ár fær framreikning, ef þetta er ungur maður fær hann framreikning til 67 ára aldurs, að mig minnir. Hann fær framreikning til enda starfsævinnar og getur fengið mjög myndarlegan örorkulífeyri, 50–60% af launum, af oft og tíðum mjög háum launum sem greitt er af í Lífeyrissjóð sjómanna. Þetta gleymdi hv. þingmaður að nefna líka. Það er því alls konar misræmi í þessu kerfi fram og til baka.

Mig langar til, herra forseti, að ræða rétt aðeins um samspil Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða. Maður sem fær ekki neitt neins staðar, ekki úr lífeyrissjóði, tekjur eða annað slíkt og býr einn, fær núna í dag — ég fór í Reiknhildi Tryggingastofnunar á tr.is — 104. 445 kr. á mánuði í lífeyri frá TR og síðan er dreginn skattur frá því, þannig að hann er með 93 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði. Þetta er algjört lágmark, þessi maður hefur engar tekjur neins staðar frá.

Ef hann er með meðallífeyri frá Lífeyrissjóði bænda, sem við erum að ræða hér um, þar sem meðalellilífeyrir er 15 þús. kr. og menn hafa verið að býsnast yfir, hann er reyndar mjög lágur, en ef hann er gefinn inn í þetta sama reikniforrit hjá Tryggingastofnun ríkisins 180 þús. kr. á ári fær hann 97.695 kr. á mánuði plús 15 þúsund kr. úr lífeyrissjóðnum, og hann er með 112.695 á mánuði fyrir skatt. Ég vil minna á að það er nokkuð svipað og nokkrir taxtar Eflingar eru fyrir fulla vinnu, þ.e. lífeyrisþegi sem er með meðalellilífeyri frá Lífeyrissjóði bænda er með tekjur á mánuði sem svara til dagvinnulauna samkvæmt taxta Eflingar. Svo geta menn náttúrlega rætt um hvort þau séu ekki lág.

Ef þessi maður fær 50 þúsund kr. á mánuði úr lífeyrissjóði, sem er ekki sérstaklega óalgengt, fær hann frá Tryggingastofnun 82 þús. kr. og hann er með 132 þús. kr. fyrir skatt í tekjur. Þetta vil ég að menn hafi í huga áður en þeir ræða mikið fleira. (ÖJ: Þetta eru bara milljónerar!) Nei, ég segi það ekki, milljónerar, en þeir eru a.m.k. með tekjur sem eru yfir töxtum Eflingar. Og það vill svo til, því miður, að það er fjöldi manns í þjóðfélaginu sem fær taxta Eflingar, þó að þingmenn kannist kannski ekki við það.