131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:09]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi studdi hv. þingmaður frumvarp sem veitti honum sjálfum umframréttindi miðað við aðra í þjóðfélaginu og þykist síðan með sýndarmennskumálatilbúnaði vilja stefna í einhverja allt aðra átt.

Réttindi þingmanna voru ekki skert. Það er valkvætt fyrir hvern og einn að velja það kerfi sem þjónar hans hagsmunum sem best.

Síðan þetta gamaldags viðhorf um opinberan rekstur og opinbera starfsmenn og þá sem sinna öðrum verkum í þjóðfélaginu. Þetta er gamaldags úrelt viðhorf. Það að leggja málin þannig upp að þeir sem sinna starfi í menntakerfinu eða í heilbrigðiskerfinu, að sjúkraliðinn á öldrunardeild Landspítalans sé á framfærslu hjá samfélaginu, hjá fólki sem sinnir öðrum störfum í landinu, þetta er náttúrlega afskaplega niðurlægjandi. Ekki fyrir starfsmanninn, heldur fyrir þann þingmann sem talar svona. Þetta eru úrelt gamaldags viðhorf sem eiga ekki nokkra stoð í veruleikanum.

Við lifum í samfélagi sem skiptir með sér verkum. Sumir starfa á almennum vinnumarkaði, í verslunum, sjómennsku eða í öðrum störfum, aðrir sinna öðrum hlutverkum í heilbrigðisþjónustunni, í skólakerfinu, og þetta á að heyra sögunni til að tala á þennan hátt niður til fólks.

Um efnisþætti sem fram komu hjá hv. þingmanni varðandi starfsaldurstengingarnar eða aldurstengingarnar í lífeyriskerfinu, það er ekki rétt að um þetta hafi farið fram víðtæk umræða. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðskerfanna, lýsti því yfir hjá okkur að hann væri í fyrsta skipti að koma á almennan fund að taka þátt í umræðu um þessi mál þegar hann kom á fund hjá BSRB.

Þegar breyting er gerð á einum stað í kerfinu og hún muni hafa afleiðingar annars staðar í kerfinu, (Forseti hringir.) það er einmitt það sem við erum að vara við. Við erum að hvetja til þess að menn fari ekki á út á þá braut án þess að víðtækt samráð fari fram um það í öllu kerfinu.