131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:16]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta — því að þetta var eiginlega ekki andsvar, þetta var meðsvar — þá kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að ríkissjóður greiðir 234 millj. á ári í lífeyrissjóðinn, sem eru 40 millj. fyrir hvert prósent, 2% til viðbótar mundu því þýða 80 millj. á ríkissjóð. Og hver skyldi greiða það? Það eru náttúrlega launþegar í ASÍ, sjómenn, bændur og opinberir starfsmenn sem mundu borga þessar 80 millj. (Gripið fram í.) Þetta er hluti af búvörusamningi. Um þetta verður því fjallað í búvörusamningi þegar þar að kemur.

Varðandi það að opinberir starfsmenn hafi haft lægri laun á tímabili, er það rétt. Það var reyndar ekki langur tími, kannski 10–15 ár, en laun þeirra hafa hækkað óskaplega mikið undanfarið, og það er svo sem ágætt nema það eykur kostnað ríkisins mikið. Þau hafa hækkað mikið meira en laun annarra í þjóðfélaginu nema kannski lífeyrisþega.

En að hækka þetta nú þegar upp í 8% mundi þýða 80 millj. á ári á skattgreiðendur, sjómenn, Vestfirðinga og aðra launþega. Við þurfum því að gæta okkar pínulítið í útgjöldunum því að allt er þetta greitt með sköttum og mér sýnist þegar ég tala við kjósendur mína í Reykjavík og úti á landi líka að menn séu ekki voðalega hrifnir af skattbyrðinni sem þeir þurfa að borga.