131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:20]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum lagt til ýmsar skattalækkanir eins og t.d. skatta á hagnað fyrirtækja, það var lækkað úr 50% niður í 18% og tekjur ríkissjóðs hafa stórvaxið. (Gripið fram í.) Kakan hefur stækkað svo mikið að ríkissjóður hefur meiri peninga til að borga lífeyri í gegnum Tryggingastofnun o.s.frv. og borga opinberum starfsmönnum hærri laun. Þess er vænst að þegar skattur á einstaklinga verður lækkaður um 4% að hinn venjulegi launþegi, ASÍ-maðurinn, fari loks að koma að góðærinu, að þá muni hvatinn til þess að afla sér hærri tekna með því að stunda menntun eða annað slíkt, skipta um starf, sá hvati verði meiri og kakan muni stækka og tekjur ríkissjóðs muni ekki lækka eins mikið og skattalækkunin gefur til kynna. Þetta er trú okkar og það hefur sýnt sig að hún er rétt. Skattalækkanirnar geta því skilað ríkissjóði meiru vegna þess að kakan stækkar, og það hefur verið stefnan undanfarin ár að gera einmitt það.

En talandi um lífeyrissjóðina og hinar 80 millj. sem hv. þingmaður gerði kröfu um að verði skellt á ríkissjóð sisvona, þá eru það útgjöld og menn þurfa að átta sig á því að öll aukaútgjöld ríkissjóðs þýða meiri skattbyrði svona eða hinsegin, á sjómenn, á Vestfirðinga. Ég held að meðallaun hjá ASÍ-manni séu um 260–270 þús. kr. á mánuði, sá maður fær þegar skattalækkanirnar ná í gegn að fullu 10, 12 þús. kr. meira á mánuði til ráðstöfunar. (Gripið fram í.) Ég er ekki að tala um það, ég er að tala um að hinn venjulegi launþegi hjá ASÍ fær 10–12 þús. kr. meira í ráðstöfun og hann hefur alveg nóg við þá peninga að gera.