131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:22]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum við 2. umr. um Lífeyrissjóð bænda og nefndarálit frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Eins og fram hefur komið lýtur frumvarpið að því að verið er að víkka úrræði stjórnar Lífeyrissjóðs bænda vegna þess hve staða sjóðsins er slæm. Aldursskipting sjóðfélaga er og hefur alltaf verið mjög óhagstæð miðað við flesta aðra lífeyrissjóði og frumvarpið á að koma til móts við þá stöðu þannig að hægt sé að bregðast við henni. Verið er að hækka mótframlag frá ríkinu, eins og fram hefur komið, úr 6% í 7%.

Ég vil lýsa ánægju minni með frumvarpið. Mér finnst það vera liður í réttlætisátt og er ánægð með það sem næst fram með því.

Mig langar til þess að geta um svar sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra sem mér finnst mjög mikilvægt að komi fram í umræðunni. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hve margir sjóðfélagar fengju nú greitt úr Lífeyrissjóði bænda.

Svarið er þannig: Árið 2004 fengu að meðaltali 3.668 lífeyrisþegar greiddan lífeyri úr sjóðnum í hverjum mánuði. Þar af fá sumir fleiri en eina tegund lífeyris. Heildarlífeyrisgreiðslur í janúar 2005 námu 57.270 þús. kr.

Einnig var spurt um fjölda sjóðfélaga. Fjöldi virkra eða greiðandi sjóðfélaga á árinu 2003 var 3.530 og þá hafði þeim fækkað úr 4.283 frá árinu 2002. Ástæðu fækkunarinnar má rekja til laga nr. 140/2002, um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Samkvæmt þeim var hætt að skipta iðgjöldum sjálfkrafa milli hjóna og sambýlisfólks en við það fækkaði greiðandi sjóðfélögum töluvert. Virkum sjóðfélögum hefur hins vegar fækkað jafnt og þétt mörg undanfarin ár eða um 5–10% á ári. Það var ekki hægt að gefa upp hve margir greiðandi sjóðfélagar voru árið 2004, en þetta er auðvitað afleiðing af því að bændum fækkar ár frá ári og hefur sú þróun verið lengi.

Mig langar líka aðeins að geta um það hvernig lífeyrisgreiðslurnar skiptast. Lífeyrisþegar sem fá eingöngu greiddan lífeyri vegna búskapartíma, þ.e. greitt að fullu úr ríkissjóði, eru 13 karlar, sem fá að meðaltali 14.590 kr., það eru fimm konur sem fá að meðaltali 15.108 kr., eða samtals til beggja kynjanna 14.734 kr.

Í makalífeyri sjóðfélaganna er enginn karl en þar eru 145 konur og þær fá að meðaltali 13.329 kr. Lífeyrisþegar sem fá greitt vegna áunninna réttinda, uppbót vegna búskapartíma þeirra sem fæddir eru 1914 og fyrr meðtalin. Þá kemur í ljós að 1.592 karlar fá meðalgreiðslur 18.049 kr., konur eru 1.065 og meðalgreiðslur þeirra eru 10.751 kr. eða um 5 þús. kr. lægri en karlanna og samtals til beggja kynja um 15 þús. kr.

Makalífeyrir, þar eru karlar 44 sem fá meðalgreiðslur 6.404 kr., konur eru þar 718 og meðalgreiðslur eru 8.446 kr.

Örorkulífeyrir er þannig að flestir fá 0–10 þús. kr. eða 44. Þeir sem fá hæst fá um 52 þús. kr., sem eru þrír talsins. 145 karlar fá örorkulífeyri og meðalgreiðslur til þeirra eru 20.709 kr. Konur eru þar 235 og meðalgreiðsla er 19.235 kr. Samtals fá 380 manns greiddan örorkulífeyri og þetta eru tæpar 20 þús. kr.

Ég vildi koma svarinu sem ég fékk frá fjármálaráðherra að því að ég held að það víkki aðeins út umræðuna sem hér hefur farið fram.

En vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni áðan varðandi skattana vil ég koma því að að við höfum verið að lækka skatta fyrir allan almenning. Allir njóta góðs af skattalækkununum. Kaupmáttur hefur vaxið ár frá ári og ég held að það sé ekki hægt að finna nokkurt annað ríki þar sem fólk hefur það jafngott og við Íslendingar. Það er alltaf verið að reyna að bæta hag þeirra sem standa verst og við því erum við að bregðast með því að bæta Lífeyrissjóð bænda. Eins munum við styrkja hann með sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Allt verður þetta til þess að stuðla að því að bændur fái greiddar sæmilegri eða betri lífeyrisgreiðslur en þeir hafa fengið hingað til.