131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:28]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lesið svarið sömuleiðis og þetta eru skelfilega lágar tölur og væri hræðilegt ef fólkið hefði ekkert annað til að lifa af. En eins og ég gat um áðan er það ekki svo og mér finnst ekki rétt að koma með svona upplýsingar án þess að geta um heildarmyndina, hvað fólk fær til að lifa af í heildina.

Ég gat þess áðan að maður sem býr einn og fær meðallífeyri, sem er 15 þús. kr. á mánuði, fær til viðbótar frá Tryggingastofnun ellilífeyri, tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót, samtals 97.695 kr. frá Tryggingastofnun ef hann er með 15 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Hann fær sem sagt 112.695 kr. á mánuði, rúmar 112 þús. kr. til að lifa af. Það er heildarmyndin og það er það sem menn þurfa að tala um. Menn eiga ekki að tala alltaf um einn og einn þátt, tala t.d. bara um að heimilisuppbótin sé 18 þús. kr., heldur tala um heildarmyndina, það sem fólkið fær í vasann. Svo borga þeir að sjálfsögðu skatt af þessu eins og aðrir launþegar, en við erum að tala um tekjur upp á 112 þús. kr. rúmar á mánuði fyrir bónda sem er einmitt með meðallífeyri, 15 þús. kr. á mánuði.