131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:30]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skoða heildarmyndina, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Við erum auðvitað að skoða heildarmyndina, við erum að ræða um Lífeyrissjóð bænda sem er einn lélegasti lífeyrissjóður landsins.

Ég hef fylgst mjög vel með lífeyrisgreiðslum til bænda í mörg ár og ég hef séð hvað makar bænda fá, ekkjur. Það eru smánarlegar upphæðir eins og ég gat um áðan. Þrátt fyrir að fá viðbót frá ríkinu er þetta ekki til að hrópa húrra fyrir. Þegar búið er að taka skatta af 112 þús. kr. er ekki mikið eftir.

Við verðum líka að átta okkur á því að fólk sem hefur misst heilsuna er á lágum örorkubótum, er kannski með, ég hef séð dæmi um það, 80–90 þús. kr. úr að spila á mánuði, fólk sem er ekki einu sinni orðið sextugt, og það er auðvitað ekki gott, hvorki fyrir sjálfsmyndina né annað, að leggja ekki meira til heimilis síns en það.