131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:31]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við verðum alltaf að skoða alla myndina, það sem fólk fær í vasann, ekki bara einstaka þætti. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem nýverið var birt um fjölgun öryrkja að þeir eru margir hverjir, sérstaklega hjá lágtekjufólki, með töluvert hærri ráðstöfun en þeir höfðu áður en þeir urðu öryrkjar. Þeir eru með hærri ráðstöfunartekjur, og umtalsvert hærri ef þeir eru með börn, en þeir höfðu sem launþegar áður. Þeir hagnast sem sagt á því fjárhagslega að verða öryrkjar. Það þarf því vissulega að líta á alla heildarmyndina.

Mér skilst að laun bænda margra hverra, sérstaklega sauðfjárbænda, séu ekkert voðalega há, ég hugsa að þeir nái margir hverjir ekki 112 þús. kr. nettó á mánuði þannig að þeir eru kannski að fá í ellilífeyri meira en þeir höfðu áður sem tekjur.