131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:32]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, þetta er einmitt staða margra bænda. Þó að sumir hafi það mjög gott, fá þeir sem bera lakast úr býtum hærri greiðslur mánaðarlega þegar þeir komast á ellilífeyri, ellilaun, og það er bara gott. Verið er að varpa ljósi á hve margir það eru sem fá mjög lítið úr þessum lífeyrissjóði, það er það sem um er að ræða. Við því erum við að bregðast, að bæta Lífeyrissjóð bænda, og það er aðalatriðið að þeir fái aðeins meira úr lífeyrissjóði sínum en þeir hafa gert hingað til. Þetta eru náttúrlega ekki neinar upphæðir þegar litið er á þessar tölur hér og það er engin afsökun þó að fólk fái greitt frá Tryggingastofnun, Lífeyrissjóður bænda er samt mjög lélegur.