131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:35]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég sagði var að með frumvarpinu er verið að hækka mótframlög ríkisins úr 6% í 7%. Til þess að breyta því þarf að gera það í búvörusamningi eða eins og fram kemur í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Mótframlag atvinnurekenda í sjóðinn er nú 6% og er greitt af sjóðfélaga eða ríkissjóði sé samið um það í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Ríkissjóður greiðir árlega 234 millj. kr. í lífeyrissjóðinn samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 vegna mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, eða um 40 millj. kr. fyrir hvert prósent atvinnurekenda.

Verði frumvarpið að lögum leiðir það ekki sjálfkrafa til aukinna útgjalda ríkissjóðs þar sem framlög í sjóðinn eru bundin samningum.“

Nýr mjólkursamningur mun taka gildi 1. september í haust og nú er í smíðum nýr búvörusamningur í sauðfjárframleiðslunni. En ég vil bara ítreka aftur að ég tel þetta til bóta þó að ekki sé farið upp í 8%, en eins og fram hefur komið eru þessar upphæðir fastar í búvörusamningi en það er verið að hækka framlagið.