131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:36]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er formaður landbúnaðarnefndar og bóndi og starfar innan Bændasamtakanna og veit sjálfsagt vel hvað þar hefur verið rætt. Því fagna ég þeim upplýsingum sem hún veitir hér úr ræðustól um hækkun mótframlags úr 6% í 7% og er vonandi stefnt að því að það verði 8% eins og er almennt stefnt að í kjarasamningum launþega, ég vona sannarlega að þetta sé rétt mat hjá hv. þingmanni en ég sé það hvergi neins staðar í lagatextanum. Hins vegar má lesa í athugasemdum hvað það er á almennum vinnumarkaði og eins má lesa það í umsögn fjármálaráðuneytisins hvað hvert prósentustig kostar, þ.e. 40 milljónir fyrir hvert prósent, og síðan að útgjöld vegna sjóðsins séu bundin samningum.

Ég skil það því svo að um þetta hafi verið rætt og menn telji góðar vonir til þess að þetta verði fest í samningi milli Bændasamtakanna og ríkisins.