131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Tollalög.

493. mál
[15:45]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Hér er fjallað um frumvarp að nýjum tollalögum en núgildandi tollalög eru nokkuð gömul, frá árinu 1986. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar, framfarir og tækniþróun sem gefur fullt tilefni til endurskoðunar á lögunum. Hér er um mikinn lagabálk og doðrant að ræða og tók nokkurn tíma fyrir nefndina að fara yfir frumvarpið.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir ýmsar breytingartillögur við frumvarpið eins og það var lagt fram. Flestar þeirra eru að mati minni hlutans til bóta. Engu að síður flytjum við hér sérstakt nefndarálit, minni hlutinn, en minni hlutann skipa ásamt mér hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson og Helgi Hjörvar.

Það komu fram ýmsar umsagnir um þetta mál, sumar með alvarlegum athugasemdum varðandi efni frumvarps til tollalaga. Eftir umfjöllun nefndarinnar um þetta mál og yfirferð yfir umsagnir er ljóst að minni hluti nefndarinnar telur að skoða þurfi margt í tollalögum og tollaumhverfinu betur og mikilvægt sé að til þessara nýju tollalaga sé vandað eins og frekast er kostur.

Í minnihlutaálitinu nefnum við að umsagnaraðilar sem komu á fund nefndarinnar og sendu inn umsagnir gerðu mjög alvarlegar athugasemdir og gagnrýndu ákvæði frumvarpsins. Samtök verslunar og þjónustu, Tollvarðafélagið, BSRB og embætti skattrannsóknarstjóra, svo dæmi séu nefnd.

Við gerum í nefndaráliti okkar grein fyrir gagnrýni okkar á frumvarpið sem lýtur að verkaskiptingu milli tolls og lögreglu. Það varðar sakarskilyrði, það varðar heimild tollstjóra til endurálagningar tolla og gjalda, það varðar tollumdæmin og ábendingar tollvarða um skilgreiningu á tollvarðarstarfinu. Við gerum athugasemdir við þessi atriði.

Ég vil aðeins, áður en ég fer í þessar ábendingar okkar og gagnrýni, fara aðeins yfir það sem fram kemur í umsögnum Samtaka verslunar og þjónustu. Ég ætla ekki ítarlega í einstakar umsagnir en vil gefa smá sýnishorn af þeim alvarlegu athugasemdum sem komið hafa fram.

Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu segir að, með leyfi forseta: „… þrátt fyrir ýmsar umbætur sem felist í frumvarpi til tollalaga sem hér er til umræðu, væru þar jafnframt alvarlegir annmarkar sem stangast á við framkvæmd tollalaga í dag og gera það nær óvinnandi fyrir tollmiðlara að sinna starfi sínu.“

Þeir segja einnig orðrétt, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

„Meðal grundvallaratriða sem rétt þykir að nefna hér sem almenna athugasemd er að skipting landsins í tollumdæmi er fráleit ráðstöfun og veldur margs konar erfiðleikum sem eitt tollumdæmi mundi ekki skapa.“

Ég vil líka vitna í umsögn sem unnin er af lögmannsstofunni LEX-NESTOR og LOGOS lögmannaþjónustunni, en þeir aðilar fóru yfir frumvarpið fyrir hönd umbjóðenda sinna, sem voru: Samskip hf., Eimskipafélag Íslands ehf., Jónar Transport hf. og TVG-ZIMSEN hf. Þessir aðilar, ásamt Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum kaupskipaútgerða tóku höndum saman síðasta vor, þ.e. sennilega fyrir ári síðan, í þeim tilgangi að koma að athugasemdum og þrýsta á um breytingar á frumvarpinu. Þeir nefna í umsögn sinni að tekið hafi verið tillit til einhverra breytinga frá fyrri frumvarpsdrögum sem lögð hefðu verið fram á þingi.

Þeir segja svo orðrétt í umsögn sinni:

„Telja þessir aðilar að umrætt frumvarp (493. mál) engu að síður í verulegum atriðum stangast á við núgildandi verklagsreglur skipafélaganna og starfsemi tollmiðlara og telja jafnframt frumvarpið í stórum atriðum brotthvarf til fortíðar auk þess að fela í sér skuldbindingar og kvaðir sem geta kippt fjárhagsgrundvelli undan fyrirtækjum í landinu svo ekki sé talað um starfsemi tollmiðlara sem sé hreinlega í hættu verði frumvarpið óbreytt að lögum.“

Þetta er náttúrlega engin smágagnrýni sem hér kemur fram og eðlilegt að við í minni hlutanum stöldrum aðeins við þetta og meiri hlutinn geri á þessu töluverðar breytingar sem er, eins og ég nefndi áðan, til bóta.

Í þessari umsögn, sem dagsett er 7. mars 2005, segir í lokin, með leyfi forseta:

„Varðandi frumvarpið í heild sinni er þess að geta að félögin telja vissulega að sumar þær breytingar sem þar eru lagðar til séu til úrbóta en þau telja að margar af þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu, varðandi framkvæmd tollafgreiðslu og starfsemi farmflytjenda og tollmiðlara, samrýmist ekki nútímaviðskiptaháttum og stangist í raun á við framkvæmdina eins og hún er í dag. Einnig telja þau að óeðlilegar kröfur séu lagðar á farmflytjendur, tollmiðlara og starfsmenn þeirra hvað varðar refsiábyrgð. Verði frumvarpið að lögum óbreytt telja félögin nær óvinnandi veg fyrir tollmiðlara að sinna starfi sínu.“

Ég ætla að láta þetta nægja af tilvitnunum í þessar umsagnir en ég mun fara yfir umsögn Tollvarðafélags Íslands síðar í máli mínu.

Varðandi verkaskiptingu milli tollembættanna og lögreglu þá getum við þess að við teljum að það atriði í frumvarpinu þurfi miklu meiri athugunar við en liggur að baki frumvarpinu, þ.e. þessi verkaskipting og valdmörk milli lögreglu og tollstjóra. Afar mikilvægt er að öllum sé ljóst frá frumstigi hver eigi að fara með mál og dugar að benda á þau vandkvæði sem upp komu vegna rannsókna á samkeppnislagabrotum fyrir nokkrum missirum. Oft er erfitt að ákvarða alvarleika og eðli tollalagabrota og æskilegt að lagatexti sé sem allra skýrastur um hvaða brot skuli rannsökuð af lögreglu og hver af tollstjórum. Ákvæði frumvarpsins um þetta hafa sýslumenn m.a. gagnrýnt. Fyrir dyrum hefur staðið heildarendurskoðun á ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og telur minni hlutinn að eðlilegra væri að skoða verkaskiptingu milli lögreglu og tollyfirvalda í tengslum við þá endurskoðun frekar en að binda nú í lög umdeilda verkaskiptingu sem líklegt er að verði að breyta innan fárra ára, hvort sem það verður vegna endurskoðunar á lögum um meðferð opinberra mála eða fækkunar tollumdæma.

Í nefndaráliti okkar komum við aðeins inn á sakarskilyrði. Í frumvarpinu er refsiábyrgð tollmiðlara, farmflytjenda og annarra sem koma að innflutningi hert frá gildandi rétti og miðað við að venjulegt gáleysi sé nægjanlegt til að fella sakarábyrgð á einstaklinga, sbr. 172. gr. Þetta gagnrýndu umsagnaraðilar eins og Samtök verslunar og þjónustu harðlega. Skattrannsóknarstjóri færði aftur á móti í umsögn sinni rök fyrir því að rétt væri að breyta refsiskilyrðum í 172. gr. til samræmis við skilyrði laga um tekjuskatt og eignarskatt þannig að ekki þurfi að sanna ásetning svo að brot geti varðað fangelsisrefsingu, sérstaklega ef brot er stórfellt. Þetta sýnir mismunandi áherslur sem menn leggja í þessu efni varðandi sakarskilyrði, annars vegar aðilar eins og Samtök verslunar og þjónustu í eina áttina og síðan skattrannsóknarstjóri í aðra átt.

Minni hlutinn telur sakarskilyrði laganna þarfnast verulegrar endurskoðunar og að ekki sé mögulegt fyrir nefndina að endurskoða þau ákvæði svo vel sé nema fyrst fari fram samanburður við ákvæði annarra laga á sviði skattaréttar og refsiréttar. Við teljum að sú skoðun þurfi að fara fram áður en sakarskilyrði verða bundin í lög með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem meiri hlutinn hefur að vísu flutt breytingartillögu um.

Við förum aðeins yfir heimild tollstjóra til endurálagningar tolla og gjalda og teljum að ákvæði frumvarpsins um endurálagningu tolla og gjalda verði að rannsaka nánar. Ýmsir umsagnaraðilar gagnrýndu þessi ákvæði og hvöttu til þess að frumvarpið yrði ekki afgreitt á þessu þingi heldur yrði unnið milli þinga að ásættanlegri lausn fyrir bæði ríki og innflytjendur enda ljóst að endurálagning allt upp í sex ár aftur í tímann getur valdið innflytjendum verulegum rekstrarvanda. Hefði verið rétt að skoða þessar heimildir nánar í samhengi við lög um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Við förum aðeins yfir það sem fram kemur í umsögnum ýmissa aðila sem leggja til að tollumdæmum verði fækkað frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Slík breyting hefur lengi verið til umræðu og er af mörgum talin nauðsynleg, m.a. til að ná fram samræmi í framkvæmd laganna. Menn telja skorta á það. Í upphaflegu frumvarpi til tollalaga, sem dreift var til kynningar undir lok 130. þings, var gert ráð fyrir töluvert ólíku skipulagi tollyfirvalda en því sem nú er lagt til. Í frumvarpinu sem lagt var fram á 130. þingi var gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík færi með tollamálefni í umboði ráðherra og tollumdæmum yrði fækkað úr 26 í níu. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að fallið hefði verið frá fækkun tollumdæma m.a. vegna þess að til stæði að skoða mögulegar breytingar í þessum efnum á næstunni í samhengi við endurskoðun annarra stjórnsýslusviða, svo sem lögreglu og sýslumanna.

Minni hlutinn telur að gera þurfi ítarlega úttekt á kostum þess og göllum ef fækka á tollumdæmum og meta sérstaklega áhrifin á landsbyggðina, m.a. hvort færa mætti einhver verk tollgæslunnar sem nú eru unnin í Reykjavík út á land þó að umdæmum hennar verði fækkað. Í heild teljum við og höfum rök fyrir því, þ.e. að þessi mál eru í skoðun og við teljum að áðurnefnd úttekt þurfi að fara fram á kostum þess og göllum að fækka umdæmum, að það hefði átt að fresta afgreiðslu þessa máls og skoða málið allt í víðara og stærra samhengi.

Við getum þess einnig, virðulegi forseti, í nefndaráliti okkar að rétt hefði verið að ræða ítarlegar en kostur gafst á um muninn á milli vaxta sem einstaklingar verða að greiða til ríkis vegna vangreiddra gjalda og skyldu ríkisins þegar það þarf að endurgreiða oftekin gjöld. Þennan mismun þarf að skoða í samhengi við önnur lög á skattasviði. Það snertir ekki bara þessi tollalög heldur þarf að skoða þetta í heild. Nefndin ræddi þetta nokkuð og ég heyrði það á meiri hluta nefndarinnar og formanni nefndarinnar að hann telur að skoða þurfi þetta nánar. Þetta er einn lítill þáttur í tollafrumvarpinu sem snertir önnur lög einnig, önnur lög á skattasviði. En við töldum ástæðu til að halda þessu til haga í nefndaráliti okkar.

Loks nefnum við þá athugasemd sem fram kom frá tollvörðum. Við teljum að rétt hefði verið að að taka tillit til ábendinga Tollvarðafélagsins og BSRB um skilgreiningu á tollvarðarstarfinu og á hvaða forsendum heimilt er að fela öðrum en tollvörðum tollgæsluvald. Og þá er ég komin að umsögn Tollvarðafélags Íslands sem ég vil grípa aðeins niður í, með leyfi forseta. Þeir fjalla um skipun tollvarða í umsögn sinni og segja orðrétt, með leyfi forseta:

„Í 46. gr. frumvarpsins er gerð breyting þess efnis að tollstjórar skipi tollverði til fimm ára og eru þar meðtaldir aðaldeildarstjórar og deildarstjórar en þeir voru áður skipaðir af fjármálaráðherra. Er það álit stjórnar Tollvarðafélags Íslands að um afturför sé að ræða. Telur félagið að miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipun mannaráðninga hjá ríkinu á síðustu árum til að auka faglegan þátt ráðningar og jafnræðis, til að tryggt sé að alltaf verði um að ræða faglegt mat á umsækjendum, verði skipun æðstu yfirmanna tollgæslu áfram í höndum fjármálaráðuneytisins. Fjármálaráðuneytið hefur á sínum vegum starfsmannaskrifstofu með sérhæfðum starfsmönnum á þessu sviði. Telur því félagið að til að tryggt að áfram verði faglega staðið að ráðningu yfirmanna tollgæslu verði sú skipan sem verið hefur áfram í höndum fjármálaráðherra.“

Síðar í umsögn sinni segja þeir, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. 46. gr. er tiltekið að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsheiti tollvarða. Þessi texti er í núverandi lögum frá 1987 án þess að ráðherra hafi sett þessa reglugerð. Hefur þetta ákvæði verið rætt við ráðherra og stjórn Tollvarðafélags Íslands og er vonandi að reglugerðin verði sett áður en lögin taka gildi.“

Sú ósk Tollvarðafélags Íslands hefur varla gengið eftir og hvetjum við auðvitað til þess að eftir þessari ábendingu verði farið og að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsheiti tollvarða, eins og margoft hefur verið kallað eftir.

Loks segir í umsögn Tollvarðafélagsins, með leyfi forseta:

„Jafnframt er í 2. mgr. ákvæði um að ekki megi skipa aðra sem tollverði en þá sem lokið hafa prófi frá Tollskóla ríkisins eða hafi sambærilega menntun. Með bréfi til fjármálaráðuneytisins frá 17. des. 1998 var óskað eftir skilgreiningu á þessu atriði. Ekkert svar hefur borist þannig að greinilega er ekki auðvelt að svara þessu.“

Það er eðlilegt, virðulegi forseti, að mati okkar í minni hlutanum að kallað sé eftir því af hálfu Tollvarðafélagsins að fjármálaráðuneytið svari því, að þeir skilgreini hvað átt er við með „sambærilegri menntun“ og hvetjum við einnig til þess að fjármálaráðuneytið svari Tollvarðafélaginu. Við teljum það algjört lágmark í stjórnsýslunni að erindum og bréfum af þeim toga sem ég hef lýst sé svarað. Þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því 1998 segir í umsögninni, með leyfi forseta: „Ekkert svar hefur borist þannig að greinilega er ekki auðvelt að svara þessu.“

Þessu vildi ég halda til haga vegna þess að ég tel þetta vera sanngirni, þær óskir sem hér koma fram hjá Tollvarðafélaginu, að réttarstaða þeirra sé ljós að því er þetta varðar.

Niðurstaða okkar, virðulegi forseti er þessi:

Við meðferð frumvarpsins gafst nefndinni ekki nokkur kostur að vinna í og fara yfir tollskrá sem er fylgiskjal með frumvarpinu en bæði Neytendasamtökin og nokkrir innflytjendur hvöttu til ítarlegrar endurskoðunar á henni.

Minni hlutinn telur rétt að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað og nefndin vinni að því í samráði við fulltrúa hagsmunaaðila og framkvæmdarvaldsins að bæta frumvarpið og samræma það betur öðrum lögum þannig að það geti orðið sá grundvöllur að innflutningsviðskiptum sem því er ætlað að vera.

Virðulegi forseti. Við teljum að hér vanti verulega upp á. Skoða þarf ýmis atriði í frumvarpinu eins og ég hef lýst, svo sem verkaskiptingu milli tolls og lögreglu, sakarskilyrði, tollembætti og skiptingu tollumdæmanna, málefni tollvarða og heimild tollstjóra til endurálagningar tolla og gjalda svo eitthvað sé nefnt. Við munum því ekki standa að þessu frumvarpi, skilum séráliti og munum sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins.