131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[16:59]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kannast vel við umsagnir þeirra fyrirtækja sem hv. þingmaður nefndi, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Hins vegar kom það mjög skýrt fram á fundi sem hv. iðnaðarnefnd Alþingis og hv. efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis átti með þessum aðilum þar sem þeir voru spurðir að því hvenær þeir mundu greiða eignarskatt í framtíðinni, að það yrði ekki í fyrsta lagi fyrr en eftir 7–10 ár vegna þeirra miklu framkvæmda sem þeir standa í á Vesturlandi og Austurlandi. Hv. þingmenn Vinstri grænna, ég horfi hér framan í hv. þm. Ögmund Jónasson, hafa verið mishrifnir af því en þeir verða bara að eiga það við sig. Ef þeir stæðu ekki í þeim framkvæmdum þyrftu þeir að fara að greiða allverulega skatta. Þá fyrst færu raforkureikningar Reykvíkinga og fleiri landsmanna að hækka. Það kom mjög skýrt fram í máli forsvarsmanna fyrirtækjanna að það verður ekki af skattlagningunni fyrr en eftir sjö ár í það minnsta.