131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:04]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem stóð að þessum breytingum á raforkuumhverfi hér á landi fyrir áramótin og greiddi atkvæði með þeim breytingum, þeirri kerfisbreytingu sem hér hefur átt sér stað, hvort hann vilji ekki fylgja okkur til enda í þeim breytingum. Er hv. þingmaður að segja hér úr ræðustól Alþingis að honum finnist að einkaaðilar sem reka virkjanir sínar í samkeppni við ríki og sveitarfélög eigi ekki að sitja við sama borð og ríki og sveitarfélög?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann að því hvort hann hafi ekki heyrt það sama og ég frá forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja eða Landsvirkjun að þeir muni ekki borga neinn tekjuskatt næstu sjö til tíu árin í ljósi mikilla framkvæmda. Það er alveg á hreinu. Það kom mjög skýrt fram á sameiginlegum nefndafundi efnahags- og viðskiptanefndar og iðnaðarnefndar þingsins. Ég vil þá heyra það úr ræðustól Alþingis að menn beri brigður á þau orð sem þar féllu.