131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:10]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er óþarfi að svara aftur spurningum sem Jóhann Ársælsson er búinn að svara. Ég vil hins vegar halda áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni áðan vegna þess að hv. þingmaður hefur nokkuð fylgst með og stundum tekið til máls hér varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að þau samskipti séu skoðuð örlítið í þessu samhengi líka? Telur hv. þingmaður ekki að ástæða sé til þess að læra örlítið af því þegar við tókum hin nýju raforkulög í gildi? Þar voru auðvitað ýmsir gallar sem hv. þingmaður þekkir nokkuð vel frá störfum sínum í iðnaðarnefnd og þess vegna held ég að hægt hafi verið að draga a.m.k. þann lærdóm af því ferli öllu að við ættum að gefa okkur nægan tíma til að fara yfir hlutina.

Það er alveg ljóst að skattlagning orkufyrirtækja þýðir lægri tekjur til sveitarfélaga, arðgreiðslur til þeirra munu minnka, orkureikningar munu hækka á almenning og þar af leiðandi líka draga úr tekjumöguleikum sveitarfélaganna, þ.e. í skattlagningu á almenning. Hér er því enn einu sinni verið að fara þá leið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að skerða hlut sveitarfélaga til tekjuöflunar.