131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:11]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við hliðarfrumvarp við annað frumvarp, um skattlagningu orkufyrirtækja, og höfum farið inn á það svið að tala um skattgreiðslurnar og jafnræðið. Ég heyrði hv. þm. Birki J. Jónsson segja áðan að nokkur fyrirtæki, stærstu fyrirtækin minnir mig að hann hafi nefnt, Landsvirkjun og fleiri stærri fyrirtæki, mundu ekki greiða skatta á næstu árum vegna þess að þau hefðu það mikið af uppsöfnuðum kostnaði og tapi og að þetta væri gert til að jafna aðstöðu fyrirtækjanna. Þá spyr ég: Hvað með fólkið? Munu þau fyrirtæki sem ekki eru skuldum vafin fara að greiða skatta og taka það út í orkuverðinu? Ég sé ekki hvar þau eiga að taka það annars staðar.