131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:18]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hin 42 mínútna ræða sem hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti hér var yfirgripsmikil. Hann flutti að mörgu leyti ágætt mál og ræðan var vel skipulögð. Í fyrstu orðum ræðu sinnar talaði hv. þingmaður um að ég væri mikill frjálshyggjumaður og væri á frjálshyggjuvæng íslenskra stjórnmála. Svo skilgreindi hann sig sem mikinn félagshyggjumann. Ég vil hafna þessu.

Hvernig ætla menn að skilgreina hvað er frjálshyggja og hvað er félagshyggja þegar við horfum á það í dag að stjórnvöld verja 1.200 millj. til niðurgreiðslu á raforku víða um land? Ef ég væri svona mikill hægri maður ætti ég að vera í hjarta mínu á móti þeim niðurgreiðslum sem hafa lækkað raforkuverð á síðustu 10 árum víða um land, sem hefur haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir dreifbýlið. Við höfum aldrei varið jafnmiklum fjármunum til niðurgreiðslu á raforkureikningum landsmanna eins og við gerum nú. Svo vil ég að hver dæmi fyrir sig hvort það sé frjálshyggja eða félagshyggja.

Hæstv. forseti. Ég hnaut um eina setningu hjá hv. þingmanni sem var um þá uppbyggingu sem nú á sér stað, og þar greinir okkur dálítið á, m.a. uppbygginguna á Austurlandi, að þetta sé uppbygging á kostnað almennings. Nú erum við að fara í stækkun á Grundartanga. Það skiptir greinilega engu máli að margir hagfræðingar hafa haldið því fram að framkvæmdirnar hafi skipt gríðarlega miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf. Án þess að uppbygging eigi sér stað í íslensku atvinnulífi getum við ekki fylgt því eftir sem Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Vinstri grænir vilja reyndar eyða og eyða, en þeir koma aldrei með neinar úrlausnir sem leiða til þess að tekjur ríkissjóðs aukist til þess að standa undir velferðarkerfinu.