131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:32]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað af mikilli gerhygli á ræðu hv. þingmanns sem hefur nú staðið alllengi. Eftir því sem á ræðu hans leið verð ég að játa að mér varð æ órórra vegna þess að ég gat ekki heyrt betur en að hv. þingmaður væri að mæla gegn frumvarpi sem hann sjálfur skrifar hér upp á.

Sannleikurinn er sá að hv. þingmaður las hér upp úr alls konar umsögnum til að gera þetta þingmál allt sem tortryggilegast. Að minnsta kosti hlýt ég, virðulegi forseti, að álykta sem svo að ræða hv. þingmanns hafi fjallað um þetta þingmál, eða getur verið að fliss hans hér hafi gefið til kynna að hann hafi verið að fjalla hér um eitthvert annað mál? Hv. þingmaður notaði sínar mörgu mínútur til að tala gegn frumvarpi sem hann mælir hér sjálfur með. Hér kemur fram í nefndaráliti iðnaðarnefndar sem hv. þingmaður stendur að, með fyrirvara þó án þess að geta um nokkrar breytingartillögur, að hv. þingmaður leggi til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Síðan fylgir hann eftir því sjónarmiði sínu, að málinu skuli siglt til hafnar, með þeim hætti að allur málflutningur hans miðar í rauninni að því að tala gegn frumvarpinu. Ég spyr, virðulegi forseti: Hafa nokkur mistök átt sér stað? Getur verið að það hafi gerst, virðulegi forseti, án þess að öðrum þingmönnum hafi verið gerð grein fyrir því, að annað mál sé hér til umræðu, t.d. frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja sem hefur orðið dálítið tilefni til umræðu í dag og í kvöld? Getur verið að hv. þingmaður hafi einhverra hluta vegna misskilið að það sé þetta dagskrárefni sem átti að ræða, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði? Getur verið að það hafi hent hv. þingmann, þrátt fyrir sína miklu gerhygli og góðu reynslu og mikinn vilja til að fara efnislega yfir mál, að hafa talað hér í röngu máli, að hann sé að fjalla um allt annað frumvarp en það (Forseti hringir.) sem hér er til umræðu og hér er á dagskrá og (Forseti hringir.) hv. þingmaður er í raun og veru að mælast til að verði samþykkt í nefndaráliti sem hann skrifar upp á?