131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:13]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hóf þessa umræðu fyrir nokkru síðan þegar ég reyndi að kalla fram viðhorf hæstv. forseta til þess hvort og hvernig hann hygðist halda þessum fundi áfram. Mér þætti óskaplega vænt um ef hæstv. forseti gæti upplýst okkur um hvaða hugmyndir hann hefur um áframhald þessa fundar?

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að hann hefur í hyggju að fylgjast aðeins með framvindu umræðunnar til þess að meta það hversu lengi verður haldið áfram hér í nótt og kannski er fullsnemmt að segja um það akkúrat á þessari stundu.)

Virðulegi forseti. Ég get vel skilið að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vilji leiða þessa umræðu inn í nóttina. Hann ræddi um að menn skyldu halda áfram efnisumræðu en tala ekki um formið. Hins vegar skiptir umgjörðin máli vegna þess að þau rök sem við höfum fengið fyrir því að þessi mál eru keyrð áfram eru þess eðlis að við höfum vakið upp spurningar, en engin hafa verið svörin, og kannski ekki síst vegna þess að umgjörð umræðunnar er þannig að þeir sem helst búa yfir svörunum eru ekki viðstaddir umræðuna.

Við hljótum að velta því fyrir okkur að ein grunnsjónarmiðin sem búa að baki þeim hugmyndum sem við hér ræðum eru samkeppni á þessu sviði. En stór hluti þess rekstrar sem nú á að skattleggja byggir á einkaleyfum þannig að enginn er samkeppnin. Hér er einnig um það að ræða að öll helstu samtök launafólks, neytendasamtök, fulltrúar orkufyrirtækjanna og fleiri, mæla gegn þessum álögum. Hér erum við að tala um að hita- og orkureikningar landsmanna og vatnsreikningar hækki — að mati orkufyrirtækjanna, nota bene, því að ríkisstjórnin hefur ekki látið fara fram neitt mat á því hvaða afleiðingar þetta hafi í för með sér — fyrirtækin meta þetta þannig að þetta sé 10–15% hækkun á öll heimili í landinu.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að við köllum eftir viðhorfum, sjónarmiðum og rökum fyrir því að fara þessa leið. Þau rök sem er að finna í greinargerðinni og komið hafa fram í umræðunni halda einfaldlega ekki. Við hljótum að halda áfram að kalla eftir upplýsingum sem gera það að verkum að við getum rætt málið á þeim nótum að við áttum okkur á því hvað býr að baki.

Mér finnast, virðulegi forseti, öll rök sem við höfum sett fram hníga að því, það eru málefnaleg sjónarmið, að það sé tilgangslaust að halda umræðunni áfram fyrr en við fáum hv. þingmenn í salinn til að veita okkur svör við þessu. Annars erum við bara, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að tala út í nóttina án þess að upplýsa neitt í umræðunni. Til þess fer umræðan fram að við getum orðið upplýst um mál og til að hv. þingmenn geti tekið afstöðu á grundvelli samvisku sinnar.