131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:16]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um eins konar bandorm um breytingar á raforkulögum, sem er fylgifrumvarp við stjórnarfrumvarp sem gerir ráð fyrir skattlagningu á raforkufyrirtækin í landinu, mjög umdeilt frumvarp sem hefur mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Sá ágæti maður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, kvaddi sér hljóðs fyrir stundu til að gera lítið úr þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hann telur sig í stöðu til þess, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans, að senda háðsglósur til stjórnarandstöðunnar. Hann segir að hér sé mikið mannval og að farið hafi fram geysilega fróðleg umræða í dag og um að gera að halda áfram inn í nóttina. (EKG: Er það háð?) Þetta er háð, já, vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfum óskað eftir því að þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu makalausa lagafrumvarpi sem liggur fyrir þinginu komi og svari fyrir sig, svari þeirri gagnrýni sem fram hefur komið.

Ef það þykir ómerkileg umræða af okkar hálfu, sem ég tel ekki vera, þá á hið sama við um þær umsagnir sem Alþingi hafa borist, frá launafólki, heildarsamtökum launafólks, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá einstökum sveitarfélögum og frá orkufyrirtækjunum í landinu. Getur verið að ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum finnist þessir aðilar hreinlega ekki svaraverðir og boðlegt að bjóða upp á umræðu að næturlagi á meðan þjóðin sefur, (LB: Það er betra fyrir þá.) að þannig eigi að afgreiða þetta mál?

Ég skil ósköp vel að þeir sem hafa slæma samvisku og telja sig flytja illt mál vilji helst afgreiða þau í kyrrþey. Ef það er svo að stjórn þingsins ætli að fara að vilja stjórnarmeirihlutans í þessu efni og efna til ófriðar í þinginu þá skulu menn hafa ófriðinn vegna þess að okkur er alvara með að óska eftir að hlé verði gert á þessum fundi. Núna.