131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:22]

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Virðulegur forseti svaraði ekki fyrri ræðu minni og ég vil þess vegna nota tækifærið og spyrja virðulegan forseta hvort hæstv. dómsmálaráðherra og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hafi verið gerð grein fyrir því að nærveru þeirra væri óskað við umræðuna.

(Forseti (BÁ): Forseti hefur ekki gert hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni eða hæstv. dómsmálaráðherra grein fyrir því að nærveru þeirra væri óskað.)

Þá er sú ósk þess þingmanns sem hér stendur áréttuð og eftir því óskað að sá afleysingarforseti sem situr á forsetastóli í útlandafjarveru, hv. 6. varaforseti Alþingis …

(Forseti (BÁ): Ég vil minna hv. þingmann á að sá forseti sem situr í forsetastóli hverju sinni gegnir því embætti, kjörinn af þinginu, og frábið mér að hv. þingmaður tali með þeim hætti sem hann gerði.)

Hæstvirtur forseti og virðulegur forseti er beðinn velvirðingar á þeim orðum sem hér féllu en þau féllu í því andrúmslofti að virðulegur forseti virti ekki þann þingmann sem hér stendur svara um það, í fyrri ræðu sinni um fundarstjórn forseta, um hvenær vinnudegi hans lyki. Virðulegur forseti verður að virða þeim þingmanni sem hér stendur það til vorkunnar í því efni að hann er hér á fjórtánda tíma þessa starfsdags — hér hófust nefndarfundir klukkan hálfníu í morgun — og þykir ekki viðunandi að virðulegur forseti ætli að meta það svona fram eftir nóttunni hversu lengi virðulegur forseti telur eðlilegt að starfsdagur hans standi.

Hér eru nefndarfundir fram undan að átta stundum liðnum. Fyrir hverja stund sem líður á það skerðist svefntími þess þingmanns sem hér stendur og ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég skil ekki hvers konar vitleysa þetta eiginlega er. Hér standa alþingismenn, til þess kjörnir af þjóðinni að fjalla um mikilsverð og áríðandi mál. Það mál sem hér er undir varðar fjárhag hvers einasta heimilis í landinu, varðar skattálögur á hvert einasta heimili í landinu. Málefnaleg umfjöllun um það efni getur ekki farið fram að næturlagi eftir að þingmenn hafa unnvörpum unnið 13 og 14 stunda vinnudag og horfa fram á að hér hefjist nefndarfundir að örfáum klukkustundum liðnum.

Ég ítreka afsökunarbeiðni mína til forseta, á að hafa ávarpað hann óvirðulega, en ég verð að játa að á fjórtánda tíma starfsdags míns er nokkuð farið að hlaupa í skap mitt (Forseti hringir.) ef forseti vill ekki gera mér grein fyrir því hvenær starfsdegi mínum ljúki. (Forseti hringir.) Ég óska þess að virðulegur forseti segi mér það.