131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:26]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er komið nokkuð yfir miðnætti og sumir af þingmönnum þurftu að mæta til vinnu klukkan átta í gærmorgun. Ég þurfti t.d. að fara á fætur upp úr sex til að geta mætt á fund með þingmönnum Vesturlands í Vegagerðinni. Ég ætla svo sem ekki að kvarta neitt undan því. Mér finnst hins vegar undarlega til orða tekið hjá hæstv. forseta að hann ætli að meta það svona eftir því hvernig fram vindur í þessari umræðu hve lengi verði haldið áfram.

Það er nú greinilegt nokkuð hvernig fram vindur. Málinu vindur nákvæmlega ekkert fram og hefur ekki gert það býsna lengi. Hæstv. forseti hlýtur að hafa verið að meta framvinduna eftir því a.m.k. fram að þessari stundu frá því að umræður um fundarstjórn forseta hófust. Ekki hefur stjórnarandstaðan, sem hefur nánast ein haldið uppi umræðum, verið líkleg til að liðka fyrir framvindu málsins eftir þá umræðu sem hér hefur verið í gangi. Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að skilja að þannig mun það verða.

Það er hlaupin hér stífni í menn út af því hvernig að málum er staðið. Stjórnarliðar hafa ekki viljað mæta til umræðunnar til að fara yfir það og útskýra fyrir mönnum hvers vegna þeir vilja ganga þessa göngu til enda. Í umræðunni hefur verið kallað eftir því ítrekað: Hvers vegna þarf að fara í þessa skattlagningu, áður en menn sjá hvaða áhrif verða af breytingum sem ákvarðanir hafa verið teknar um á raforkusviði? Það er ekki einu sinni hægt að fá svör við því, útskýringar á því af hverju liggi svo á. Helstu útskýringarnar sem fram hafa komið eru þær að það verði engin áhrif af þessu fyrr en eftir einhver ár.

Ef svo er, hvers vegna liggur þá svo mikið á? Hvers vegna má ekki meta stöðuna betur þegar menn sjá hverju fram vindur og hvaða álögur leggjast á fólk vegna breytinganna sem búið er að ákveða? Nei, það á að halda áfram og setja þetta mál í gegn sem þýðir auknar álögur, hærra raforkuverð. Það virðist nokkuð augljóst og varla hægt að mæla á móti því enda segja það allir sem hlut eiga að máli, að þannig muni það fara. En stjórnarliðar virðast ekki (Forseti hringir.) menn til þess að mæta til umræðunnar og útskýra málið þannig fyrir okkur að við skiljum það.