131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:33]

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið sagt að gerð hafi verið tilraun til þess af hálfu stjórnarliða að lauma málinu í gegn. Hvernig má það vera? Málið var sett á dagskrá klukkan hálffimm í dag, ég gætti sérstaklega að því áðan. Þá var hábjartur dagur, sól skein í heiði og hvernig áttu menn þá að lauma málinu í gegn? Fjölmiðlar fylgdust með og auðvitað var málið rætt fyrir opnum tjöldum eins og öll önnur mál í þinginu. Við höfum verið að ræða þessi mál í átta tíma síðan þá og þátttakendur í þeirri umræðu hafa m.a. verið formaður iðnaðarnefndar og framsögumaður málsins. Það er því ekki eins og málið hafi verið skilið eftir umkomulaust í þinginu. Það hefur þvert á móti fengið mikla umræðu. Mér varð á að segja að fluttar hefðu verið efnislegar ræður og hér hefði talað mannval mikið og fékk ákúrur fyrir frá hv. formanni þingflokks Vinstri grænna. Ef þetta er eitthvað sem ég get ekki staðið við, að hér hafi verið fluttar efnislegar ræður og verið mikið mannval verð ég auðvitað að standa frammi fyrir því hugsanlega að biðjast afsökunar á því að hafa notað þetta orðfæri um talsmenn stjórnarandstöðunnar. Ef svo er er mér ekki ljúft að biðjast afsökunar á því að hafa kallað hv. þingmenn mannval og ræður þeirra mjög efnislegar. En ef það er bein krafa um að ég biðjist afsökunar og það verði til þess að greiða fyrir þingstörfunum geri ég það auðvitað til þess að hægt sé að halda málinu áfram.

Það hefur líka verið fundið að því sem hæstv. forseti sagði, að hann vildi hlusta á ræður manna til að meta framvinduna. Er þetta ekki dæmi um að hæstv. forseti er að reyna að taka mið af því sem fram kemur í máli hv. þingmanna? Hæstv. forseti er einmitt að reyna að meta stöðuna út frá því sem hv. þingmenn leggja til málsins, hann er auðvitað að leggja sig fram um að ná niðurstöðu í málinu.

Ef hv. þingmenn vilja leggja eitthvað veigamikið mál í umræðuna sem yrði til þess að greiða fyrir umræðunni gerir hæstv. forseti auðvitað rétt í því að reyna að meta stöðuna. Ég treysti hæstv. forseta til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það hvernig og hversu lengi við getum haldið umræðunni áfram. Það væri auðvitað langæskilegast og eðlilegast eins og ég færði rök fyrir áðan í ræðu sem ég flutti að við reyndum að taka þessi mál í samfellu og ljúka umræðunni. Ég biðst afsökunar á því að ég kallaði það efnislegar umræður áðan, en ef menn telja að það sé miklu skynsamlegra að ræða þessi mál í tilhlaupum og stökkum er það sjónarmið út af fyrir sig.

Ég tel hins vegar að umræðan hafi orðið til þess að greiða mjög fyrir umræðunni sem á eftir að fara fram um skattskyldu orkufyrirtækja. Það er auðvitað mjög athyglisvert að talsmenn þeirra flokka sem hingað til hafa viljað leggja álögur á atvinnulífið telja að álögur á atvinnulífið að þessu leyti til muni að (Forseti hringir.) lokum koma niður á neytendum. Það verður fróðleg umræða næst þegar við fjöllum um skattamál (Forseti hringir.) atvinnulífsins í landinu.