131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Alþjóðaumhverfissjóðurinn.

683. mál
[10:35]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna geta gerst þátttakendur í Alþjóðaumhverfissjóðnum, þessum sjóði sem aðstoðar þróunarríkin um fjármögnun verkefna sem varða hnattræn umhverfismál. Það er reyndar ekkert í reglum sjóðsins sem segir til um hver skuli vera hlutur hvers aðildarríkis í fjármögnun sjóðsins. Á hinn bóginn hefur frá upphafi verið tekið mið af reglum Alþjóðaframfarastofnunarinnar og samkvæmt þeim yrði kostnaðarhlutur Íslands í Alþjóðaumhverfissjóðnum 0,04%. Þannig mætti gera ráð fyrir að framlag Íslands til sjóðsins yrði að jafnaði 20–25 millj. kr. árlega. Hér er því um að ræða umtalsverðar fjárhæðir, eins og hv. þingmenn heyra.

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um það endanlega að Ísland gerist aðili að þessum sjóði vegna þess að menn hafa viljað skoða hvaða aðrar leiðir séu færar fyrir Ísland til að leggja af mörkum til þessa málaflokks og jafnframt nýta þá íslensku sérþekkingu sem fyrir hendi er. Þar á meðal er stuðningur við nýtingu jarðhita í þróunarríkjunum. Fyrsta verkefnið af því tagi er reyndar í burðarliðnum sem er samstarf við Níkaragva um þróunarsamvinnu á sviði jarðhita en þar í landi eru miklir möguleikar á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Við þekkjum náttúrlega þá staðreynd að mjög víða á leiðinni vill týnast af þeim fjármunum sem ganga í gegnum hið alþjóðlega sjóðakerfi. Það hefur verið kostur fyrir okkur vegna þess hve tiltölulega lítið, einfalt og gagnsætt kerfi okkar er að geta látið þá peninga sem við látum af hendi rakna skila sér til beinna verkefna en ekki hverfa í einhverja hít þar sem framlag okkar þykir ekki vera merkilegt, ef miðað er við tiltölulega lága prósentu af hinum alþjóðlegu framlögum. Þó að 25 milljónir séu töluverð upphæð á ári hverju að binda til sendingar inn í sjóð af þessu tagi höfum við viljað kanna hvort við getum ekki sjálf nýtt það verkefni með beinum hætti þannig að þeirra verkefna sjái stað. Við erum hins vegar með á okkar mælikvarða gríðarleg framlög sem ganga í gegnum hið alþjóðlega sjóðakerfi víðast hvar og vonumst til að það nýtist þokkalega. Við vitum einnig að uppihald af slíkum alþjóðlegum stofnunum og sjóðum er gríðarlegt og peningar sem hverfa í hítina og skrifræðið koma engum að gagni.

Meginmálið varðandi þann sjóð sem nefndur er til sögunnar er að menn geta gengið í hann hvenær sem þeir vilja. Inntökuskilyrðin eru engin önnur en þau að menn senda bréf og leggja fram fjárframlag sem er ekki út af fyrir sig skilyrt en hin þekkta hefð gerir það að verkum að ekki væri hægt að vera þarna nema leggja fram upphæðir af því tagi sem ég var að nefna, 20–25 millj. kr. árlega.