131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Samþætting kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.

685. mál
[10:50]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. utanríkisráðherra sagði í svari sínu að tekið væri tillit til kynjasjónarmiða þar sem við á. Það er svo sem gott að heyra, en ég er þeirrar skoðunar að þau eigi alltaf við, þess vegna séum við að tala um heildstæða úttekt og endurskoðun á utanríkisstefnunni með tilliti til þeirra. Þannig skil ég það sem ákveðið var í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar.

Það er rétt sem hér kom fram að í starfsemi norðurskautsráðsins hefur kynjasjónarmiða verið gætt mjög vel og sú vinna öll verið til fyrirmyndar hvað það varðar, enda hefur þess verið gætt í norðurskautsráðinu að hafa samstarf og samráð við grasrótarfélög, samtök frumbyggja og aðra á norðurskautssvæðinu. Einmitt þannig hefur kynjasjónarmiðanna verið gætt vegna þess að þessir aðilar hafa fyrst og fremst staðið vörð um þau og þess sér stað í skýrslu norðurskautsráðsins. Það er vel.

Hæstv. ráðherra sagði í svari sínu að gagnaöflun hefði tekið lengri tíma en menn gerðu ráð fyrir þannig að tillögurnar væru á leiðinni síðar á þessu ári. Ég fagna því en það kemur enn og aftur í ljós, hæstv. forseti, að gagnaöflun vegna þessa málaflokks er alltaf erfið vegna þess að svo virðist sem í stjórnkerfinu sé þess ekki gætt almennt að tölfræði sé kyngreind og henni haldið til haga þannig að hægt sé að nýta hana og nota við stefnumótun og annað það sem þarf að gera.