131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Stuðningur við börn á alþjóðavettvangi.

741. mál
[11:00]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka utanríkisráðherra mjög vel fyrir þetta svar. Mér fannst það einlægt og það vekur með mér vonir um að við séum kannski á líkri línu með það að æskilegt sé fyrir Ísland að einbeita sér að takmörkuðum, fáum verkefnum og reyna ekki að vera eins og stórþjóðirnar að setja peninga alls staðar. Ég veit að það er kallað eftir þessum framlögum úr mjög mörgum ólíkum áttum.

Mér finnast mörg verkefni sem Ísland hefur staðið að vera mjög mikilvæg, eins og t.d. Bosníuverkefnið sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi. Það var mjög gott og það var þýðingarmikið og ég held að mjög margir hafi vitað um það á þeim stað að Ísland var að vinna merkilegt brautryðjendastarf þarna.

Mér finnst skipta mjög miklu máli að við getum stutt frjáls félagasamtök eins og Barnaheill og eins líka skólamál í Írak. Það var mjög merkilegt að heyra í samtali sem við áttum í morgun að meira að segja fátæk lönd eru að leggja fram einhverja fæðu sem svo stofnunin útbýtir á þeirra eigin svæði í þeirra eigin landi. Við í utanríkismálanefnd höfum heimsótt Þróunarsamvinnustofnun og við heyrum það, eins og það er rétt, að peningarnir skila sér betur en oft og tíðum þegar verið er að setja þá bara inn í tiltekin svið í einhverjum löndum. Þeir eru ekki þeirrar skoðunar að það eigi að einbeita sér að konum bara, eða bara börnum. Það er auðvitað miklu áhugaverðara að taka þátt í fjölmörgum umfangsmiklum verkefnum.

En ég er alveg viss um að við erum í dag að takast á við miklar afleiðingar örbirgðar og vonleysis, m.a. með hryðjuverkum og öðru, (Forseti hringir.) og Ísland væri að gera mjög góða hluti ef við einbeittum okkur í framtíðinni alfarið að börnunum.