131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Stuðningur við börn á alþjóðavettvangi.

741. mál
[11:02]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það er skynsamlegt og eðlilegt að land sem hefur úr takmörkuðum fjármunum að spila reyni að afmarka og skilgreina verkefni sín með skipulegum hætti þannig að þau beinist að sjáanlegum verkefnum. Ég tel fyrir mitt leyti, og er algjörlega sammála hv. þingmanni, að það eigi að vera veigamikill þáttur í starfsemi okkar að beina þessum verkefnum að börnum og með vissum hætti kannski einnig að konum í tengslum við börnin. Ég tel að það sé ekki neitt skaðlegt fyrir verkefni okkar í heild. Þó að ég sé ekki að segja að við eigum að afmarka það eingöngu við þennan þáttinn held ég að áherslan eigi að vera mjög sterk og rík á þessum þætti.