131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Bílastæðamál fatlaðra.

674. mál
[11:13]

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál, að mínu mati, og þakka sérstaklega þau viðbrögð hæstv. samgönguráðherra að til greina komi að taka það upp samhliða fyrirhugðum breytingum á umferðarlögum. Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir hreyfihamlaða einstaklinga í landinu. Það er mjög ómerkilegt að horfa upp á það þegar ófatlaðir einstaklingar leggja í vel merkt stæði sem ætluð eru hreyfihömluðum einstaklingum. Hér er verið að skerða ferðafrelsi þessa þjóðfélagshóps og Alþingi ber að taka ákveðið frumkvæði í þessu samhengi.

Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að eins og staða mála er í dag heyrir ákvörðun þessa gjalds undir viðkomandi sveitarstjórnir. En ef viðkomandi sveitarstjórnir sjá ekki ástæðu til þess að sektir við brotum af þessu tagi verði hærri en 2.500 kr., sem menn fá afslátt af ef þeir greiða innan tiltekins tíma, í því skyni að menn hætti að brjóta þessi lög, að menn hætti að ganga á þessi lögbundnu réttindi fatlaðra, er mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga taki frumkvæði í málinu. Ég heiti á hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir því að ákvörðunarvaldið verði fært í hendurnar á Alþingi þegar við breytum umferðarlögum á komandi þingi. Hér er um mjög mikið hagsmunamál að ræða fyrir fatlaða einstaklinga.