131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgangagerð.

751. mál
[11:18]

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Mikil umræða hefur verið um jarðgangagerð hér á landi að undanförnu, svo vægt sé til orða tekið. Bættar samgöngur eru undirstaða blómlegrar byggðar enda er það svo að byggðarlögin vítt og breitt um landið knýja nú á um samgöngubætur, kannski ekki síst í gerð jarðganga.

Nú eiga sér stað miklar boranir í tengslum við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Þar eru göng heilboruð og eru afköstin margföld á við hina hefðbundnu aðferð þar sem sprengt er úr bergi. Mikil umræða á sér nú stað á Austurlandi um tengingu byggðarlaganna þar. Þetta er fjölkjarnasvæði, mörg sveitarfélög eru á Austurlandi, tiltölulega smá sveitarfélög, sem mikilvægt er að tengja til þess að mynda heildstætt atvinnusvæði.

Mikið frumkvæði á sér stað á Austurlandi í þessum efnum. Til að mynda hafa sveitarfélög á Austurlandi gert samning við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri um að gera mat á jarðgangatengingum á Austurlandi, þ.e. arðsemismat og mat á samfélagslegum áhrifum þeirra framkvæmda á Austurland og nær þessi athugun allt frá Lóni í Hornafirði norður til Vopnafjarðar. Margar fyrirhugaðar framkvæmdir hafa verið nefndar, svo sem fyrirhuguð jarðgöng undir Hellisheiði sem mun tengja vonandi Vopnafjörð og Hérað. Jafnframt er búið að stofna áhugamannahóp á Austurlandi sem kallast Samgöng, en það er hópur sem vill skoða til framtíðar litið hvort hægt sé að gera svokölluð miðfjarðagöng, sem eru göng frá Eskifirði yfir í Norðfjörð, frá Norðfirði yfir í Mjóafjörð og úr Mjóafirði til Seyðisfjarðar. Hugmyndin er svo í framhaldinu að tengja þessi miðfjarðagöng Fljótsdalshéraði eða Héraðinu þannig að þetta yrði að einu heildstæðu atvinnusvæði.

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir að hér er um mjög kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða, en ég er einn af þeim sem halda því samt sem áður fram að gerð jarðganga hér á landi sé arðbær til framtíðarinnar litið og hafi mjög mikilvæg byggðarleg áhrif. Því er mikilvægt að skoða alla hugsanlega kosti í því samhengi hvernig við förum í framkvæmdir af þessu tagi. Nú er það ljóst að erlendis er notast í nokkrum mæli við þá bortækni sem nú er nýtt við Kárahnjúka og ég veit til þess að aðilar í áhugamannahópnum Samgöng hafa haft áhuga á því að leita til þeirra aðila sem þar eru að bora við gerð Kárahnjúkavirkjunar, hvort mögulegt sé að nýta þá tækni í því samhengi og því beini ég áðurgreindri fyrirspurn til hæstv. ráðherra.