131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgangagerð.

751. mál
[11:21]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það fer ekki á milli mála að mikill áhugi er fyrir jarðgangagerð á Íslandi um þessar mundir. Á þessum degi svara ég sex fyrirspurnum, fjórar þeirra snúast um jarðgöng, þannig að það gefur smámynd af því sem þingmenn bera fyrir brjósti.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson spyr:

„Hefur ráðherra kannað kosti þess að nýta þá bortækni sem nú er m.a. notuð við gerð Kárahnjúkavirkjunar við gerð lengri vegganga á Íslandi?“

Þetta er eðlileg og áhugaverð spurning. Svar mitt er svohljóðandi: Vegagerðin fylgist vel með þróun í gerð vegganga víðs vegar í heiminum og leggur áherslu á að viða að sér allri þeirri þekkingu sem fært er. Sú tækni sem nú er notuð við gerð jarðganga Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. svokölluð heilborun, er vel þekkt og hefur m.a. verið skoðuð við undirbúning lengri vegganga hér á landi.

Val á bortækni í hverju einstöku verkefni er þó í höndum verktaka hverju sinni. Vegagerðin lýsir fyrst og fremst í útboðum sínum hvernig mannvirki verktakinn skuli skila í verklok en ekki hvaða tæki skuli nota við framkvæmdina. Þegar kemur að útboði næstu jarðganga gefst verktökum færi á að nýta og bjóða fram þá tækni sem þeir telja henta. Er ekkert því til fyrirstöðu að nýta heilborun innan þeirra marka sem útboðslýsingar munu setja.

Ég hvet því að sjálfsögðu, og hef gert það áður hér úr þessum ræðustól, verktaka til að huga vel að möguleikum og nýta þau tæki sem til staðar eru hverju sinni á landinu. En þegar til kastanna kemur verður þetta að sjálfsögðu mat þeirra verktaka sem bjóða í hvaða tæki þeir geti notað til að gera viðkomandi mannvirki sem ódýrast.

Það er nú tilgangurinn einmitt með útboði á slíkum framkvæmdum að leita hagkvæmustu leiða, hafa ekki rígbundið verkfyrirkomulag, og á það er bent í svari mínu við þessari fyrirspurn. Ég endurtek það og hvet verktaka að sjálfsögðu, sem kunna að fylgjast með þessum umræðum hér á hinu háa Alþingi, að skoða alla kosti.

Í tengslum við fyrirspurnina vil ég hvetja hv. þingmenn, áhugamenn um jarðgangagerð, til að kynna sér, hafi þeir ekki nú þegar gert það, mjög athyglisverða grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl sl. og er skrifuð af verkfræðingnum Ísleifi Jónssyni. Greinin fjallar m.a. um hversu mikla þýðingu það hefur hvernig jarðlögin eru sem á að bora í gegnum. Hann vekur athygli á að ekki er alls staðar á vísan að róa með jarðlögin, þau eru mismunandi frá einum landshluta til annars og þá sérstaklega þegar kemur að því að bergið er misjafnlega gamalt að sjálfsögðu og þar af leiðandi misjafnlega lekt, sem er kannski hið stóra atriði, ekki síst ef bora á undir sjávarbotni.

Ég vil að lokum vekja athygli hv. þingmanna aftur á þessari grein og hvet þá til að kynna sér hana.