131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgangagerð.

751. mál
[11:29]

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni og þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir ágæt svör. Það er mjög brýnt að við skoðum þetta vandlega, og ég efa það ekki að Vegagerðin fylgist mjög vel með framförum á þessu sviði víða um heim í gerð jarðganga.

Það var alveg hárrétt sem hæstv. samgönguráðherra benti á áðan að náttúrlega þarf að vekja áhuga þessara aðila að bjóða í verk af þessu tagi, ef það getur leitt til þess að gerð jarðganga víða um land verði ódýrari en nú er og þar af leiðandi hagkvæmari.

Því er það mjög athyglisvert og áhugavert ef áhugamannahópurinn Samgöng sem ég nefndi í fyrri ræðu minni mundi vekja áhuga þeirra aðila sem nú m.a. stunda boranir við gerð Kárahnjúkavirkjunar að koma að tilboðum líkt og varðandi Héðinsfjarðargöng eða aðrar samgöngubætur á Austurlandi.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom inn á Vaðlaheiðargöng sem er mjög mikilvæg framkvæmd, sem verður gerð trúlega í einkaframkvæmd og mun þar af leiðandi ekki kosta ríkissjóð háar upphæðir, en það er gríðarlega mikilvæg samgöngubót til að gera Þingeyjarsýslur og Eyjafjarðarsvæðið að einu atvinnusvæði. Við alþingismenn þess kjördæmis og annarra kjördæma höfum verið að beita okkur fyrir því að efla atvinnu á því svæði, m.a. með uppbyggingu iðnaðar á svæðinu sem mun hafa mjög mikil áhrif á Þingeyjarsvæðið og Eyjafjarðarsvæðið í heild sinni, vegna þess að því er ekki að leyna að í Þingeyjarsýslum stendur byggð í ákveðinni vörn og það er mjög mikilvægt að við reynum að leita allra leiða til að efla það svæði og þar munu Vaðlaheiðargöng gegna mjög mikilvægu hlutverki.

Ég þakka fyrir svar hæstv. ráðherra.