131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgangagerð.

751. mál
[11:31]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Allt er það rétt sem hér hefur komið fram. Hv. þingmenn hafa ekki dregið úr því sem ég sagði í svari mínu að áhugi fyrir jarðgöngum og jarðgangagerð er mikill. Það blasir við. Áhugi Íslendinga almennt er alveg geysilega mikill fyrir endurbótum á samgöngukerfinu og það er verið að gera mjög mikið um allt land og á höfuðborgarsvæðinu í því að endurbæta samgöngukerfið. Það er auðvitað einn hængur á þessu og hann er sá að við höfum takmarkaða fjármuni. En þetta er sá þáttur í innviðum okkar sem ég tel að við eigum að leggja mikla áherslu á.

Í tengslum við og í umræðum um nauðsyn þess að setja meiri fjármuni til vegagerðar koma alltaf upp öðru hvoru úrtöluraddir, ályktanir, og hvaðan helst síðustu dagana? Jú, þær koma af höfuðborgarsvæðinu þar sem sveitarstjórnir, nú síðast úr Hafnarfirði, vekja alveg sérstaka athygli á hversu mikilvægt sé að setja meiri fjármuni inn á höfuðborgarsvæðið.

Í svari mínu við fyrirspurn sem liggur fyrir þinginu kemur það hins vegar fram að framlögin á höfuðborgarsvæðið hafa verið að aukast mikið. Oft og tíðum, og því miður, er slíkum ályktunum beint gegn geysilega mikilvægum framkvæmdum á landsbyggðinni sem ekki síst snúast um að auka umferðaröryggi. Ég harma slíkar ályktanir.