131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:42]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þarna er hreyft máli sem engin spurning er að menn þurfa að beina sjónum sínum mjög sterkt að á næstunni og núna. Það er ekki bara að þjóðvegirnir séu að eyðileggjast undan þessu aukna álagi heldur eru þeir engan veginn þannig gerðir að þeir þoli þessa flutninga. Þeir eru of mjóir, það er ekki bara viðhaldið sjálft heldur þarf að endurnýja verulega stóra hluta af þjóðvegum landsins vegna þess að þeir eru of mjóir. Ég held því að það sé ekki bara viðhaldið sjálft sem þarna þarf að skoða, heldur þurfi að skoða í hve mikla endurnýjun þurfi að fara á þjóðvegum landsins vegna þess álags sem þarna er að aukast með svona greinilegum hætti.

Ég vona að einhverju leyti fari þessir flutningar aftur til sjós en það er ekkert sem liggur fyrir að það gerist, a.m.k. á næstunni.