131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:45]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra sagði að 1.400 millj. kr. væri varið árlega til viðhalds vega og að það væri talið nægja miðað við aukna þungaflutninga.

Ég spyr mig: Er þetta raunveruleg þörf eða eru menn úti á landsvegunum að forgangsraða miðað við takmarkað fjármagn sem sett er til viðhalds vega á fjárhagsáætlun?

Mig langar líka til þess að vita: Hve mikil hefur aukningin á fjármagni til viðhalds vega verið á síðustu árum síðan sú breyting varð sem við ræðum?

Það vill svo til að í gær ræddi ég við mann sem hefur atvinnu af því að flytja sorp. Hann sagði mér að aukinn kostnaður við rekstur hans vegna olíugjaldsins yrði væntanlega á einu ári um 2,5 millj. kr. Svipað mun væntanlega verða varðandi vöruflutninga. Sú staðreynd hlýtur enn að benda okkur á að nauðsynlegt er að taka málið til rækilegrar endurskoðunar, einnig flutningana á sjó.

Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller að það er algjörlega ófært að hafa alla þungaflutningana á landi. Það er ekki nauðsynlegt að flytja alla hluti samdægurs á milli staða. Margir hlutir geta farið á sjó og það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að stuðla að því að við komum eitthvað af þungaflutningunum af vegunum.