131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng í Dýrafirði.

775. mál
[11:59]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar hafa verið að ég vissi best í þeirri röð að fyrst væru göngin fyrir austan tekin, síðan reyndar göngin til Siglufjarðar, þau skjótast inn, en alveg tvímælalaust ættu þessi göng að vera næst. Þá finnst mér vera afar mikilvægt að hefja nú þegar undirbúning að því að gera göngin tilbúin til útboðs og til vinnu þannig að við stöndum ekki í sömu sporum og við stöndum nú með vegagerðina t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum fyrir Breiðafjörð. Þar er ekki hægt að fara í framkvæmdirnar vegna þess að undirbúningnum og nauðsynlegum ferli er ekki lokið.

Ferillinn tekur tíma og þess vegna legg ég áherslu á að hafist verði handa þegar í stað að undirbúa göngin til framkvæmda þannig að þau séu tilbúin þegar fé og tími er kominn. Það er of seint að hefja undirbúninginn þá.