131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:09]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn sem er gagnleg og nauðsynlegt að fá fram þau atriði sem ég mun nú svara. Spurt er:

„Styður ráðherra þau sjónarmið að vegsamgöngur við Bolungarvík verði um jarðgöng þegar horft er til framtíðarlausnar og ef svo er, hvar telur ráðherra að þau göng eigi að vera?“

Svar mitt er svohljóðandi: Jarðgöng til Bolungarvíkur hafa af og til komið til skoðunar en á sínum tíma var ákveðið að byggja upp veg um Óshlíð með þeim hætti sem þekkt er í dag. Ef litið er til framtíðar er ekki ólíklegt að jarðgöng muni leysa Óshlíðarveg af hólmi en ekki hefur verið tekin nein afstaða til staðsetningar slíkra mannvirkja.

Í maí 2002 var birt greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur en ég beitti mér fyrir því að sá vinnuhópur var settur til verka. Í hópnum voru Gísli Eiríksson, umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar, Jón Helgason, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, Ólafur Kristjánsson bæjarstjóri fyrir hönd Bolungarvíkur, Ágúst Björnsson, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, og síðar Friðgerður Baldvinsdóttir fyrir hönd Súðavíkurhrepps.

Hvað varðar Óshlíð voru niðurstöður hópsins þær að stefna skuli áfram að byggingu vegskála en með möguleika á að skipta síðar yfir í jarðgöng milli Seljadals og Kálfadals frekar en að byggja marga skála. Slík göng yrðu um 1,5 km á lengd og vegurinn yrði áfram um Óshlíð að öðru leyti. Vegagerðin mun í framhaldinu kanna áfram ýmsa möguleika í þessu sambandi í ljósi þeirrar reynslu sem hefur aflast.

Ég legg ríka áherslu á að áfram verði unnið að endurbótum á Óshlíðarvegi og tel eðlilegt að jarðgangakosturinn verði metinn að nýju við endurskoðun samgönguáætlunar til tólf ára, en eins og fyrr hefur komið fram hér mun sú vinna hefjast strax á næsta ári. Ég tel afar mikilvægt að við lærum af reynslunni um uppbygginu vegarins um Óshlíð og nýtingu þess búnaðar sem þar hefur verið komið upp og hvernig vegskálarnir hafa nýst en tel eins og hér segir í svari mínu að huga þurfi að þeim kosti og þeim möguleika að þarna verði jarðgöng.

Ýmsir ágætir menn, heimamenn, hafa bent á jarðgangakost þarna. Ég vil t.d. vekja athygli hv. þingmanna á greinum sem birst hafa á vefnum bb.is, m.a. frá Elíasi Jónatanssyni, og ég tel að Vegagerðin, þegar hún fer að huga að næstu skrefum í þessu, þurfi að leita samráðs við þá heimamenn sem best þekkja þarna til og kalla þá til sem best þekkja uppbyggingu og þjónustu á vegum þarna á svæðinu.

Ég tel að við þurfum að leita allra leiða til að tryggja uppbyggingu vegarins um Óshlíð sem best og það komi að sjálfsögðu til álita, eins og fyrr segir, að leysa það með jarðgöngum.