131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:14]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða varpar enn frekar ljósi á það hvers vegna þingmönnum leikur hugur á að vita sem nánast um framþróun í bortækni, því að ekki er einungis um að ræða þau göng sem hér hafa verið nefnd í umræðunni í morgun heldur bíða okkar mörg fleiri verkefni.

Ég ætla að leyfa mér að nefna hér ein göng til viðbótar á Vestfjörðum, þ.e. göngin á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Það hittist þannig á í vetur að ég hitti fréttamenn sem voru staddir á Ísafjarðarflugvelli, þá nýkomnir frá Súðavík, og þeir höfðu beðið á veginum í heilan klukkutíma vegna þess að fallið höfðu átta snjóflóð úr Súðavíkurhlíð á veginn þegar þeir áttu þar leið um. Þetta dæmi sýnir betur en margt annað hversu nauðsynlegt og lífsnauðsynlegt það er að fá miklu fleiri jarðgöng í landinu.