131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:18]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þessi umræða sannar svo ekki verður um villst hversu mikið skortir á að við fylgjum eftir bæði þeim áætlunum sem við höfum sett hér á undanförnum árum um vegaframkvæmdir, ekki síst á Vestfjörðum og Norðausturlandi, þeim svæðum sem þó er viðurkennt að standi langt að baki öðrum landshlutum. Samt leyfa menn sér, stjórnarliðar, hæstv. ráðherra, að skera niður um tugi ef ekki hundruð milljóna króna framlög sem ráðgert var að setja í vegina um Vestfirði og skera niður vegáætlun á þriggja ára tímabili um 6 milljarða kr.

Hér kom formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og reyndur þingmaður Vestfjarða og talaði um gamla drauma. Já, þeir eru nú að verða býsna gamlir draumarnir um samgöngubætur á Vestfjörðum og ef fram fer sem horfir munu þeir margir hverjir eldast (Forseti hringir.) enn meir, því miður.