131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:20]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að taka fram að ég er ekki pirraður en ég ætla að upplýsa að þeir sem eru með fyrirspurnir og benda á ýmsar framkvæmdir ættu að íhuga það þegar þeir eru að samþykkja niðurskurð. Það fer ekki saman að samþykkja niðurskurð og ýta síðan hinn daginn á eftir framkvæmdum. Ég held að menn verði að gera sér það ljóst.

Það hefur orðið mikill niðurskurður á fjármunum til vegagerðar. Ef farið er aftur til 2001 þá er liðlega 30% minna fé sem hlutfall af ríkisútgjöldum varið til vegamála á árinu 2005 en árið 2001. Eins er varðandi viðhald á vegum, það eru tölur hér frá upplýsingaþjónustu Alþingis sem gefa skýrt til kynna að það er mikill samdráttur þrátt fyrir alla þungaflutningana á vegunum. Ég vona að hv. þm. Birkir Jón Jónsson átti sig á að það fer ekki saman. Ef bæta á vegina eða koma á nýjum samgöngubótum (Forseti hringir.) kostar það fjármuni og það verður að verja fé til þess.