131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:22]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum eins konar mínísamgönguáætlun á þessum morgni. Við ræddum samgönguáætlunina í hv. samgöngunefnd í morgun og hér eru umræður sem eru framhald af því, jarðgangagerð og bortækni, viðhald þjóðvega, jarðgöng í Dýrafjörð og nú til Bolungarvíkur, og svo ræðum við um Siglufjarðarveg á eftir. Þykist ég þess fullviss að þar verði eitthvað rætt um jarðgöng líka, ef ég þekki hv. fyrirspyrjanda rétt í þeim efnum.

Það er auðvitað alvarlegast, virðulegi forseti, að árið 2005 tökum við Íslendingar í notkun þriðju alvörujarðgöngin á Íslandi og nefni ég þá Ólafsfjarðargöng, Vestfjarðagöng og Fáskrúðsfjarðargöng í þeim efnum. Ég segi, virðulegi forseti, að Strákagöng til Siglufjarðar og Oddskarðsgöng fyrir austan eru lélegar tilraunir til jarðgangagerðar vegna þess að þar var bara ekki notuð nútímatækni. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Ég tek undir það sem hæstv. samgönguráðherra sagði áðan að auðvitað er ekki ólíklegt að í náinni framtíð verði rætt um (Forseti hringir.) jarðgöng til Bolungarvíkur, þess ágæta staðar. Ég minnist þess þegar ég var þar fyrir 30 árum (Forseti hringir.) að ég skildi ekki af hverju ekki var rætt um það í staðinn fyrir viðgerð á Óshlíð.