131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:23]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur orðið um þessa fyrirspurn. Ég heyri að það er almennur skilningur á því að gera þurfi bragarbót í samgöngumálum til Bolungarvíkur þó að ekki sé ljóst hvort allir eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ráðast í jarðgöng.

Ég vil hvetja efasemdarmenn í þeim efnum til að kynna sér málið betur og sérstaklega hæstv. samgönguráðherra. Í mínum huga er enginn efi á því að ekki verður hægt að koma á öruggum samgöngum til staðarins öðruvísi en að ráðast í jarðgöng. Tilraunin frá 1980 er fullreynd, ákvörðun sem menn tóku út frá fjárhagslegum sjónarmiðum og því að menn höfðu ekki trú á bortækninni sem þá var uppi. Menn mega ekki láta þau mistök endurtaka sig í nýjum ákvörðunum, menn verða að taka þær út frá því sem þeir vita og sjá að reynst hefur vel annars staðar.

Ég er ekki hrifinn af þeim hugmyndum sem Vegagerðin hefur reifað um þrenn stutt jarðgöng í Óshlíðina, einhvers konar bútasaum, hugmyndir sem eru settar fram á sömu forsendum og Norem-hugmyndirnar forðum, vegna þess að menn eru að reyna að spara. Menn eru ekki að leitast við að finna lausn til að leysa vandann varanlega heldur að komast eitthvað áleiðis fyrir lítið fé. Þó að það sé góðra gjalda vert að menn vilji gera slíkt væru menn að mínu viti að gera sömu mistökin á nýjan hátt ef þeir ætluðu sér að leysa vandann að hluta til eins og hugmyndir eru með jarðgöng milli Seljadals og Kálfadals. Það er ekki varanleg lausn, virðulegi forseti. Menn eiga að sýna þessu máli sambærilegan metnað og þeir sýna þegar þeir ákveða að leysa samgöngur til eyðifjarðarins Héðinsfjarðar.