131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:25]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort áform þeirra sem lögðu á ráðin um að leggja svokölluð Héðinsfjarðargöng hafi verið tengd því sérstaklega að komast í Héðinsfjörð, eins og skilja mátti á hv. fyrirspyrjanda sem hér talaði.

Ég vil bara leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þar sem hann flokkaði mig í hóp einhverra sérstakra efasemdarmanna um nauðsyn þess að bæta samgöngur til Bolungarvíkur. Ég átta mig ekki á hvernig hann fann það út úr ræðu minni eða svari mínu. Ég gerði grein fyrir hvaða áform þar eru uppi, en það er auðvitað ekki hægt að víkja því algjörlega til hliðar að búið er að fjárfesta þarna mjög mikið í vegskálunum sem að ýmsu leyti hafa nýst prýðilega þó að þeir leysi ekki þörfina fyrir betri og öruggari samgöngur um Óshlíðina. Það er alveg ljóst og þess vegna kom fram í svari mínu að nú þarf að leggja á ráðin um næsta áfanga endurbóta. Bent var á þá hugmynd m.a. að þarna yrðu gerð stutt jarðgöng til að leysa það mál og þar með að nýta þá feiknarlega dýru fjárfestingu sem vegskálarnir eru.

Að öðru leyti þakka ég þessa umræðu enn og aftur og mikinn áhuga hv. þingmanna á jarðgangagerð og sérstaklega samgöngubótum sem skipta auðvitað mjög miklu máli fyrir okkur.