131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:28]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn, með leyfi forseta, til samgönguráðherra:

Telur ráðherra að Siglufjarðarvegur, frá Fljótum um Almenninga og Strákagöng til Siglufjarðar, geti áfram verið greiðfær heilsársvegur í fyrirsjáanlegri framtíð og hvað þarf að verja miklu fé til þess að svo verði?

Það er fyllsta ástæða til að leita eftir afstöðu ráðuneytisins til vegarins, m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslu um sigsvæði á Siglufjarðarvegi sem Vegagerðin lét taka saman fyrir nokkrum árum og menn geta kynnt sér á vef Vegagerðar ríkisins.

Í niðurstöðum þeirrar skýrslu segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Í Almenningum við utanverðan Skagafjörð er að finna að minnsta kosti sex stór berghlaup og eru alla vega þrjú þeirra á töluverðri hreyfingu enn í dag.“

Neðar í niðurstöðukaflanum segir, með leyfi forseta:

„Eins og mæliniðurstöður Vegagerðarinnar sýna er mjög mikið framskrið á öllu þessu svæði, en mest er það þó í sigsvæði sem nefnt er Skógar. Þar nemur að meðaltali mesta hreyfing allt að 60 cm á ári. Ef það er bakreiknað frá þeim tíma sem vegurinn var lagður þá nemur heildarframskriðið rúmlega 21 m.“

Og enn, svo að ég vitni annars staðar í niðurstöðukaflann, með leyfi forseta:

„Svæðið norðan við Kóngsnef ber öll ummerki þess að þar sé einnig töluvert framskrið en þó nokkuð frábrugðið. Þar liggur vegurinn mun nær brún hlaupsins og hægt er að fullyrða að þar sé töluverður undangröftur sjávar óðfluga að grafa undan vegstæðinu. Hlíðin neðan við veginn er öll sprungin og rifin og er töluverð hætta á að stór stykki falli úr vegstæðinu. Mesta framskrið á þessu svæði nemur að meðaltali um 26 cm á ári en það eru um 7 m síðan vegurinn var lagður.“

Svo vitna ég að lokum hér, með leyfi forseta:

„Eins og sést á þessu þá eru það þrjú megin framskriðsvæði innan berghlaupanna á Almenningum sem hafa teljandi áhrif á vegstæðið. Greinilegt er þó af ummerkjum að víðar er töluverð hreyfing á efnismössum sem hafa þó ekki bein áhrif á vegstæðið í dag. Ljóst er að á svæði 1 er mikil hætta á því að stór stykki geti sigið niður eða hlaupið fram úr núverandi vegstæði og nágrenni þess. Við slíka atburði gæti vegurinn spillst eða orðið ófær um tíma en núverandi vegstæði einnig einfaldlega orðið ónýtt. Um þá hættu sem umferð um veginn stafar af þessu þarf ekki að fjölyrða.“ — Segir í skýrslu Vegagerðarinnar.