131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:38]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að flestir séu sammála um að réttast hefði verið að fara með jarðgöng úr Fljótum til Siglufjarðar í stað þess að ráðast í þær framkvæmdir að fara með veg fyrir Almenninga og gegnum Strákagöng á sínum tíma.

Fram hefur komið í umræðunni að vegurinn fyrir Almenninga og Strákagöng til Siglufjarðar muni þurfa verulegt viðhald í framtíðinni. Besta framtíðarlausnin varðandi vegasamgöngur fyrir Skagafjörð, Siglufjörð og Eyjafjörð hefði verið að mínu mati að tekin hefðu verið jarðgöng í gegnum Fljót til Siglufjarðar og einnig varanleg leið úr Fljótum til Ólafsfjarðar og þaðan inn á Eyjafjarðarsvæðið. Það hefði verið besta og skynsamlegasta tengingin að mínu mati.

Ég tel að þó svo að menn ráðist í Héðinsfjarðargöng, (Forseti hringir.) ef af verður, þurfi líka að horfa til bættra samgangna úr Fljótum og yfir til (Forseti hringir.) Eyjafjarðarsvæðisins.