131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:39]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ljóst er að á sínum tíma var gerð úttekt á öllum mögulegum tengingum Siglufjarðar á Tröllaskaga. Vegagerðin komst að þeirri niðurstöðu að arðbærast væri að fara þá leið sem hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar ætla að standa við, enda var gert skriflegt samkomulag milli sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð og ríkisins á sínum tíma og mjög alvarlegt ef menn ætla að ganga á bak orða sinna.

Það er mjög athyglisvert þegar andstæðingar framkvæmdanna tala um að það kosti jafnvel milljónatugi aukalega að halda við Siglufjarðarvegi. Nú hefur komið í ljós að það eru 2 eða 3 millj., það eru öll ósköpin. Einnig er athyglisvert í dag þegar við höfum hlustað á hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tala um tvenn jarðgöng á Vestfjörðum, sem hann ætlast að sjálfsögðu til að menn nái samstöðu um, að hann skuli svo tala gegn annarri svipaðri framkvæmd á landsbyggðinni og tala þá framkvæmd niður.