131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:40]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég átta mig ekki alveg á umræðunni. Framsóknarmenn eru að takast á og síðan er verið að spyrja út í veg á leið til Siglufjarðar. Nú vill svo til að ég fer þennan veg nokkuð oft, sérstaklega fór ég hann oft á meðan ég starfaði fyrir norðan. Mér finnst vegurinn býsna góður miðað við ýmsa aðra vegi og einkum miðað við vegi bæði á Ströndum og í Ísafjarðardjúpi. Ég átta mig því ekki alveg á því hvað er í gangi, hvers vegna mönnum er svona umhugað um þennan veg sem kostar einungis 2–3 millj. að halda við, eins og upplýst hefur verið. Mér finnst að menn eigi að tala skýrt en ekki í hálfkveðnum vísum um það hvort menn séu að ræða þennan veg vegna andstöðu sinnar við Héðinsfjarðargöng. Mér finnst það vera miklu nær, í stað þess að vera að spyrja um ástand vega hér og þar, sérstaklega í ljósi þess að ástand vega er miklu verra t.d. á Ströndum og í Ísafjarðardjúpi.