131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:45]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég tel að þessi umræða hafi verið gagnleg og nauðsynlegt að fara yfir þetta. Ég hef ekki fullyrt neitt um að náttúruhamfarir geti ekki orðið hér á landi. Það er alls staðar nánast og við þekkjum það. Því er rétt að hafa ekki uppi nein stór orð um það.

Hins vegar vil ég undirstrika það sem ég sagði hér fyrr, að ákvarðanir um þessar útfærslur voru teknar að undangenginni ítarlegri vinnu og þær tillögur voru gerðar af þeim aðilum í Eyjafirði og Skagafirði og Siglufirði og á vettvangi Vegagerðarinnar sem þekktu vel til og lögðu fram þessar hugmyndir í því ljósi að nýta veginn um Almenninga. Það er nauðsynlegt að það komi skýrt fram.

Ég minnist þess satt að segja ekki að umræða um þann veg hafi orðið þegar ákvarðanir voru teknar um að Siglufjarðargöng yrðu svokölluð inni í jarðgangaáætluninni og síðan í samgönguáætlun. Ég hef ekki reyndar flett því upp. En ég man ekki eftir að ég sem samgönguráðherra stæði frammi fyrir þeim spurningum, t.d. frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. (Gripið fram í.) Það hefur út af fyrir sig ekkert breyst síðan, eins og ég sagði. (JÁ: Strandsiglingarnar ...) Já, hv. þm. Jóhann Ársælsson kallar hér fram í að strandsiglingar séu farnar. En það er auðvitað siglt á hafnir eftir sem áður. Ég held að fyrir flutninga til Eyjafjarðarsvæðisins þá fari ekkert á milli mála að hagkvæmast (Forseti hringir.) verði að nýta hafnaraðstöðuna góðu í Siglufirði í framtíðinni og göngin síðan inn til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins.